132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:17]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum í 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum. Í tilefni af þessu frumvarpi finnst mér full ástæða til að minna á tillögu til þingsályktunar sem Jón Bjarnason er 1. flutningsmaður að. Það er tillaga til þingsályktunar um strandsiglingar. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út.

Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2006.“

Eins og við vitum er sá tími liðinn en ég vona að þessi tillaga verði samþykkt á vorþingi. Tillagan var reyndar borin upp á síðasta þingi og fékk þá mjög jákvæða dóma og flestar umsagnir sem bárust um hana voru afar jákvæðar. Eins og ég benti á áðan er hv. þm. Jón Bjarnason 1. flutningsmaður en ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru þingmenn Frjálslynda flokksins með á þessari tillögu og ég fagna því mjög, hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson ásamt Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.

Hv. þm. Kristján L. Möller fór nokkrum orðum um það hversu mikilvægar þessar strandsiglingar eru og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom síðan inn á það að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hæddust oft og spottuðu allar tillögur um að efla þurfi strandsiglingar. Í hverri umræðu sem við förum í um samgöngumál, þegar verið er að tala um slit á vegum landsins og allt það, er það jafnan dregið fram að strandsiglingar eru auðvitað eðlilegasta flutningaleiðin þegar verið er að flytja gáma landshluta á milli. Það er því dálítið sorglegt að þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki hafa meiri skilning á þessu máli. En ég vona að þingsályktunartillaga hv. þm. Jóns Bjarnasonar verði samþykkt á þessu þingi og ég held að við verðum miklu bættari ef hún kemst í gegn. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan þá er þetta líka mjög mikilvægt umhverfismál. Það veitir ekki af á þessum síðustu og verstu tímum þegar verið er að hella yfir okkur hverju álverinu á fætur öðru, frú forseti.