132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að við þingmenn Samfylkingarinnar séum orðnir sammála Vinstri grænum í þessu máli. Málið er það að Vinstri grænir eru orðnir sammála okkur. Við rákum Vinstri græna til þess að fara inn á þessa útboðsleið en hætta við hinn gamla ríkisrekstur Skipaútgerðar ríkisins en það voru fyrstu hugmyndir þeirra þegar strandsiglingar voru lagðar af, og þarf ekki að orðlengja meira um þann vitleysisgang.

Það ber að fagna því, virðulegi forseti, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og þeir þingmenn frjálslyndra sem standa að tillögu þeirra séu orðnir sammála okkur í Samfylkingunni sem lögðum þessa tillögu fyrst fram og boðuðum að þetta væri skynsamlegasta leiðin til að halda uppi strandsiglingum þegar Eimskipafélag Íslands, fyrrum óskabarn þjóðarinnar, hætti slíkum siglingum á sínum tíma nokkru á eftir Samskipum. Hitt atriðið sem hv. þm. Hlynur Hallsson minntist á ætla ég ekki að ræða á þessu stigi enda er það ekki á dagskrá.