132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fréttaskýringaþátturinn Kompás á NFS á Stöð 2 braut á dögunum í blað með umfjöllun sinni um notkun barnaníðinga á netinu til að ná til fórnarlamba sinna. Þar var kastljósinu varpað inn í myrk horn mannlífsins með sláandi hætti. Það sem gerði þáttinn svo áhrifaríkan var m.a. notkun hans á tálbeitu. Með tálbeitunum er búin til atburðarás sem dregur níðingana fram. Tálbeitan í þessu tilfelli var 13 ára gömul stúlka sem auglýsti á einkamálasíðu á netinu. Ekki stóð á svörum. Auglýsingin lifði í tvo sólarhringa og langflestir komu inn á msn-netfang stúlkunnar og byrjuðu þar að spjalla á mjög kynferðislegum nótum. Enginn sem hafði samband við stúlkuna leitaði eftir öðru en kynferðislegu sambandi, enda eftir engu öðru að leita.

Þetta er gert til að kanna og sýna fram á eftirspurn fullorðinna karlmanna eftir börnum á þessum aldri. Það kom skýrt fram í auglýsingunni að tálbeitan var 13 ára gömul. Það fór ekki á milli mála og það var það sem mennirnir sóttust eftir. Auglýsingunni svöruðu á tveimur dögum 83 karlmenn. Af þeim voru 63 eldri en 20 ára. Það sem mestu máli skiptir er að í hlut eiga börn og unglingar sem fullorðnir karlmenn reyna að tæla til fundar við sig í gegnum netið. Þeir villa á sér heimildir og beita blekkingum, segjast vera á unga aldri og ná þannig trúnaðarsambandi við börnin og byggja upp traust við þau. Harmleikurinn heldur síðan áfram í gegnum kerfisbundnar blekkingar og líf barnsins er lagt í rúst. Að börnunum hefur verið logið, þau svikin og misnotuð kynferðislega. Vanlíðan og skömm fylgir þeim alla ævi. Þetta er ekkert annað en kynferðislegt ofbeldi og karlmenn sem sækjast eftir kynlífi við 13 ára barn eru ekkert annað en barnaníðingar. Mikilvægt er að þessi umræða leiði til þess að börnin verði meðvitaðri um hættuna en ekki síður, og fyrst og fremst, að níðingarnir verði fældir frá verknaðinum. Forvörnum verði beitt áður en barnið er í sakleysi sínu blekkt til kynlífs og athafna við fullorðinn mann með hrikalegum afleiðingum fyrir líf barnsins. Forvarnir á borð við tálbeitur gegna þar stóru hlutverki.

Því þarf að mínu mati að endurskoða heimildir lögreglunnar til að nota tálbeitur við að ná til barnaníðinga og fæla þá frá því að nota netið með þessum hætti. Hvað mundi fækka í hópi níðinga á netinu er rétt hægt að ímynda sér. Níðingarnir væru ekki lengur óhultir á bak við nafnleynd netsins. Okkur ber að vernda börnin fyrir níðingunum og netið er að mörgu leyti svarthol hvað þetta varðar. Þar vega menn í skjóli nafnleyndar og því þarf að leita nýrra leiða til að vinna gegn þess háttar misnotkun á miðlinum og netinu eins og þarna um ræðir, og svo skýrt og áhrifaríkt var dregið fram á dögunum.

Til að draga fram umfang slíkra mála má einnig benda á að þeim hefur fjölgað verulega hjá félagsþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu. Málaflokkurinn hefur stækkað svo á fáum árum að Barnavernd Reykjavíkur telur þurfa að fara að skilgreina þessi mál, slík mál, sérstaklega í kynferðisafbrotamálum. Almennt virðast félagsfræðingar sammála um að þetta sé stórt og vaxandi vandamál sem erfitt er að vinna úr. Það er mín skoðun að nú þegar þurfi að grípa til aðgerða. Það er ekki eftir neinu að bíða. Vandinn er þekktur, leiðir níðinganna kunnar og fjöldi málanna undirstrikar hve alvarlegt þetta er og að bregðast þarf við. Því hef ég tekið upp þessa umræðu hér við hæstv. dómsmálaráðherra til að kanna leiðir til að stemma stigu við þessu og finna bestu leiðirnar til forvarna, til að koma í veg fyrir að saklaust barn sé blekkt út í slíkar athafnir að það bíði þess aldrei bætur.

Því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Kemur til greina að lögreglan fái heimildir til að nota tálbeitur til að ná til barnaníðinga, m.a. í forvarnaskyni?

2. Er ráðherra kunnugt um sambærilegar heimildir lögreglu annarra Evrópulanda til að nota slíkar tálbeitur?

3. Er hæstv. ráðherra dómsmála kunnugt um mat og árangur frá öðrum löndum við notkun tálbeitna í málum barnaníðinga í forvarnaskyni og til að ná til þeirra?