132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:45]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa umræðu. Þessi umræða er afar góð því að hún undirstrikar hættuna á misnotkun á börnum með hjálp netsins. Umræðan kemur þeim skilaboðum vonandi til foreldra og barna að fara gætilega í samskiptaleiðum nýrrar aldar en hún vekur einnig upp áhugaverðar spurningar um heimildir lögreglu.

Nú hefur verið lagt fram frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem setur á fót sérstaka greiningardeild ríkislögreglustjóra sem hefur m.a. það verkefni að stunda áhættumat og greina hættu á afbrotum. Þótt málshefjandi hafi tekið skýrt fram að hann sé eingöngu að tala um tálbeitu til að ná í barnaníðinga þarf að setja þessa umræðu um tálbeitur í samhengi við önnur störf lögreglunnar og það gerir hæstv. dómsmálaráðherra sjálfur hér í umræðunni.

Viljum við t.d. að greiningardeild hæstv. dómsmálaráðherra hafi heimildir til að beita tálbeitum með þessum hætti, hafi heimild til að búa til atburðarás til að draga fram meinta óvini ríkisins? Ég verð að viðurkenna að ég set spurningarmerki við notkun þeirrar aðferðar hjá slíkum greiningardeildum. Spyrja má hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji að notkun svona tálbeitna eigi hugsanlega við í miklu fleiri málum en þeim málum sem snúa eingöngu að barnaníðingum.

Hins vegar má ræða hvort lögreglan eigi að hafa sérstök úrræði í baráttunni gegn barnaníðingum og um það snýst þessi umræða og upplegg málshefjanda. Í löggjöf okkar er víða tekið sérstakt tillit til barna og barnaverndar með sérákvæðum og færa má efnisleg rök fyrir því að svo megi einnig vera í þessu tilliti. Mundi t.d. vitneskja almennings um að lögreglan hefði heimild til að beita tálbeitum gegn barnaníðingum fæla menn frá þeirri iðju? Með því einu væri mikið unnið.

Frú forseti. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að hafa í huga að samkvæmt hegningarlögum er tilraun til brots refsiverð í sjálfu sér og að mínu mati er því ljóst að einstaklingar sem reyna að tæla eða misnota börn gerast brotlegir við lög.