132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:47]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra fyrir hans skýru og greinargóðu svör. Hvatinn að þeirri umræðu sem hér fer fram er tiltekinn brotaflokkur sem vekur sérstakan óhug og við fáum sífellt betri upplýsingar hvað snertir umfang þessa brotaflokks, hvatir brotamannsins og afleiðingar brota fyrir brotaþolann og ekki síst leiðir brotamanna til þess að fremja slík brot. Vegna þess sérstaka óhugs sem málin vekja er eðlilegt að spurt sé hvort lögreglan hafi úr öllum þeim úrræðum að spila sem nauðsynleg eru til að veita þá vernd og það öryggi sem við viljum búa borgurunum sem í þessu tilfelli er æska landsins.

Ég vil vekja athygli á því að almennt þegar rætt hefur verið um rannsóknarheimildir lögreglu vegna þróunar samfélagsins, flóknari afbrota eða tækninýjunga hefur þingið viljað flýta sér hægt. Menn hafa hér tekist harkalega á um lögfestingu ýmissa úrræða sem lögreglan hefur talið þörf á að beita til að takast á við nýja brotaflokka og brotaaðferðir. Ég tel hins vegar að hæstv. ráðherra hafi fengið samþykktar hér á þinginu mikilvægar breytingar á umliðnum árum til að koma til móts við þarfir lögreglunnar í störfum hennar og enn liggja fyrir þinginu mál sem snerta skipulag og starfshætti lögreglunnar.

Ég vil leyfa mér að taka undir með hæstv. ráðherra um að notkun tálbeitna í þeim málaflokki sem hér hefur verið til umfjöllunar hlýtur að koma sterklega til greina, það verður á endanum að vera mat lögreglunnar hvaða rannsóknarúrræði sem hún býr yfir henta best til að takast á við mál af þessu tagi. Okkar þingmannanna er að gæta að því að lögreglan hafi úr nauðsynlegum rannsóknarúrræðum að spila hverju sinni um leið og heimildirnar mega ekki vera svo víðtækar að lögreglan verði almennt of fyrirferðarmikil á samfélaginu í viðleitni sinni til að upplýsa og rannsaka brot. Eins og komið hefur verið inn á í umræðunni í dag skipta forvarnir að sjálfsögðu einnig miklu máli en ég tel æskilegt að við settum okkur skýrari reglur, ég tek undir með ráðherranum um að það þarf ekki endilega að vera í lögum en reglur í (Forseti hringir.) takt við það sem Danir hafa sett sér mætti taka upp hér á landi.