132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa fínu umræðu. Ég er mjög sammála þeirri aðgreiningu sem hæstv. dómsmálaráðherra gerði á notkun tálbeitna t.d. í fíkniefnamálum annars vegar og hins vegar varðandi níðingsverk gagnvart börnum. Það er hárrétt skilgreining og kjarni málsins er nákvæmlega sá, burt séð frá því að að sjálfsögðu er það umdeilt og umdeilanlegt að nota tálbeitur í ýmsum afbrotamálum. En eðlismunur þessara glæpa og annarra er svo mikill, þetta eru svo alvarleg brot og miklu alvarlegri glæpur en allt annað sem hægt er að draga fram og þess vegna tel ég persónulega að það sé fullkomlega réttlætanlegt að nota tálbeitur í forvarnaskyni með þessum hætti. Það þarf að gera það umræðunnar vegna og það þarf að fæla níðingana frá því að misnota netið með þessum hætti. Það er alveg á hreinu hvað mig varðar.

Hvað varðar ummæli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að ég sé með einhverjum hætti að draga úr trausti á lögregluna þá er þetta einfaldlega allt of alvarlegt mál til að ræða á þessum nótum og ég kýs að gera það ekki. Hins vegar tek ég undir þá skoðun hæstv. dómsmálaráðherra að það komi sterklega til álita og að setja þetta inn í verklagsreglur svipað og virðist vera gert í Danmörku, ég tel það góða leið og vænlega, sérstaklega til þess að stíga fyrstu skrefin í þessa átt. Og ég er algerlega sannfærður um það, sérstaklega eftir þessa umræðu og umræðu undangenginna daga og eftir að umræddur þáttur var sýndur á NFS og Stöð 2, Kompás, að þetta er leið sem við eigum að fara og þurfum að fara og ég held að allir sem fylgdust með umræðunni hafi verið slegnir óhug yfir því að 83 karlmenn svöruðu á tveimur sólarhringum auglýsingu frá 13 ára stúlkubarni um kynferðislegt samneyti. Það hlýtur hver lifandi maður að sjá hver alvarleiki og umfang brotanna er og þess vegna fagna ég aftur eindregið undirtektum og svörum hæstv. dómsmálaráðherra hér við umræðuna í dag.