132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

176. mál
[12:09]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég má til með að segja nokkur orð um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi vegna þess að ég kannaðist við skólamál í Mosfellssveit sem svo hét fyrir nokkrum áratugum en er bær núna. Það segir sína sögu um að þörfin hafi breyst að fyrir aldarfjórðungi voru íbúar þarna rétt um 2.000 en stefnir núna í að þeir verði um tugur þúsunda innan skamms.

Ég vil taka undir með hv. flutningsmönnum að það er afskaplega gott að fá þessi mál í umræðuna. Ég tek jafnframt undir að það er sérkennilegt að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ skuli ekki hafa sótt þetta mál fastar, ekki síst með hliðsjón af því að bæjarstjórinn í Mosfellsbæ er alveg gagnkunnug skólamálum í bænum, hún er búin að starfa við þau í áratugi og þekkir þau afar vel.

Ég vil aðeins rifja upp að þegar ég bjó þarna á sínum tíma sóttu að sjálfsögðu nemendur þar framhaldsnám sitt til Reykjavíkur. Það var upphaflega mest sótt til þriggja skóla, Menntaskólans í Hamrahlíð, MR tók alltaf við einhverjum en síðan beindist þessi straumur að Menntaskólanum við Sund. Núna, sem ég held að sé mjög góður kostur, sækja þeir Borgarholtsskóla, þann ágæta skóla sem stöðugt eykur hróður sinn. Það er vel. Það voru þá og eru enn alltaf sömu vandamálin, almenningssamgöngur eru tæpast nógu örar og góðar til að þetta gangi nægilega lipurlega fyrir sig. Það veldur auðvitað stóraukinni umferð einkabíla sem gæti verið miklu minni ef almenningssamgöngur væru með betra móti en nú er.

Ég tek líka undir það hjá hv. framsögumanni að Reykjalundur er stór og öflug stofnun og með framsæknustu stofnunum á sínu sviði, á sviði mjög fjölþættrar endurhæfingar. Það væri afar auðvelt að tengja starf Reykjalundar við námsbrautir í framhaldsskólanum eins og hér hefur komið fram og ég efast ekki um að hjá forráðamönnum þeirra yrði slíkt auðsótt enda hefur Reykjalundur verið alhliða endurhæfingar- og rannsóknastofnun og hefur annast kennslu á fjölmörgum sviðum.

Það verður vafalaust fróðlegt að sjá hvað starfshópur hæstv. menntamálaráðherra mun finna út úr könnunum sínum en þar sem þetta mál fjallar um að hefja þegar viðræður við bæjarstjórn Mosfellsbæjar lít ég svo á að hérna sé í rauninni fylgt fram vilja hins almenna borgara í Mosfellsbæ sem hefur þessar þarfir þrátt fyrir að menntamálayfirvöld og bæjarstjórn séu ekki komin lengra en það að hafa viðrað þennan áhuga sinn m.a. á fundum fjárlaganefndar. Það sýnir að það er vilji fyrir hendi. Ég held að það væri íbúum í Mosfellsbæ mjög hagstætt og mjög gott ef þarna kæmist á framhaldsskóli sem fyrst enda, eins og bent er á í greinargerð, er þetta líklega langstærsta bæjarfélagið sem ekki hefur eigin framhaldsskóla.