132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

176. mál
[12:24]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um stofnun framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Eins og fram kemur í greinargerð er Mosfellsbær tiltölulega ungt og vaxandi bæjarfélag með um 7.000 íbúa og hlutfall ungs fólks í þeim hópi er mjög hátt. Nú eru þar um 130 manns í hverjum árgangi á framhaldsskólaaldri og margir stærri árgangar á grunnskólaaldri. Engum blöðum er um það að fletta að Mosfellsbær er langstærsta sveitarfélag landsins sem ekki hefur eigin framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn nái 11.500 manns á næstu fimm árum og verði um 13.000 árið 2012. Ég vil nú hafa nokkurn fyrirvara á þeim tölum því að fyrir nokkrum árum var talað um að íbúar í Hafnarfirði yrðu 22.000 árið 2012. Íbúar þar eru þegar orðnir svo margir.

Einnig vil ég ítreka að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur um nokkurt skeið haft hug á að taka upp viðræður um þetta mál. En einhvern kraft virðist vanta. Það fylgir engin alvara. Hver skyldi ástæðan vera? Framhaldsskóli í Mosfellsbæ gæti hæglega þjónað fleiri en heimamönnum ef þar byggðist upp sérhæft nám að einhverju leyti, t.d. á sviði heilsueflingar og ferðaþjónustu sem nú þegar standa sterkum fótum í bæjarfélaginu. Enn fremur yrði hentugt fyrir íbúa í Grundarhverfi, á Kjalarnesi, á Álfsnesi, í Kjós og í nýju úthverfi við Úlfarsfell að sækja skóla þangað vegna nálægðarinnar.

Það er mikilvægt að framhaldsskóli sé sem næst íbúum hvers sveitarfélags. Eins og áður hefur komið fram er umferðarþungi á Vesturlandsvegi geigvænlegur. Framhaldsskóli í Mosfellsbæ mundi spara ferðakostnað fyrir þá foreldra sem ættu börn í framhaldsskólum. Ég veit af eigin reynslu að þarna eru mjög góðir grunnskólar. Það er furðulegt að hæstv. menntamálaráðherra, sem er nú þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi, skuli ekki vera jákvæðari í þessu máli en raun ber vitni. Eins og áður hefur komið fram þekki ég grunnskólana í Mosfellsbæ af eigin reynslu þar sem ég á fjögur barnabörn sem eru að nálgast grunnskólaaldur hraðbyri. Þannig að ég styð þetta mjög heilt.