132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Staðan í þessum málum er afskaplega skýr og það er ekki mikið nýtt í þeirri stöðu. Viðræður standa yfir milli aðila um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík. Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar gefið vilyrði fyrir 40% af þeirri orku og ég veit ekki betur en að í stjórn þess fyrirtækis sitji m.a. fulltrúi frá flokki hv. fyrirspyrjanda, Ögmundar Jónassonar.

Síðan standa yfir viðræður við Landsvirkjun um hvort Landsvirkjun geti útvegað orku það sem á vantar. Ekki er hægt að fullyrða um það á þessu stigi hvort þeir samningar nást. Ef þeir nást er verið að ræða þar um framkvæmdir á árunum 2007–2010. Síðan liggur fyrir sá vilji að reist verði álver á Norðurlandi og ákveðið hefur verið að ganga til frekari athugana í því máli og samninga um það. Í gær kom fram að líklegt væri að það gæti gerst á árunum 2010–2012 eða 2013.

Ef þetta gengur upp hefur hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur frekari orku til að selja á því tímabili sem fram undan er. Hvaða orku Hitaveita Suðurnesja hefur til þeirra hugmynda sem uppi eru á Suðurnesjum er ekki hægt að svara á þessu stigi eða þá hvenær.

Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því að þetta hafi vond áhrif á efnahagslífið. Það er nú rétt að halda því til haga að ef af stækkun verður í Straumsvík á næsta áratug og álveri á Norðurlandi mun það skapa störf fyrir 2.000–2.500 manns. Hagvöxtur verður 5–6% meiri en annars hefði orðið og ég vænti þess að það sé jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf. Það liggur líka fyrir að tekjur ríkissjóðs verða á bilinu 10–15 milljörðum meiri en annars hefði orðið.

Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því hvað gerist með skuldbindingar okkar að því er varðar Kyoto. Fyrir liggur að ef af þessu verður í Straumsvík og fyrirhugaðri framkvæmd á Norðurlandi rúmast það ágætlega innan skuldbindinga okkar. Þá yrði það þannig að meðaltalslosun á umræddu tímabili yrði einhvers staðar í kringum 1.500 þús. tonn. Skuldbindingar okkar eru 1.600 þús. tonn.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um að nú eru í byggingu í heiminum álver sem munu nota raforku frá vatnsafli og gufu með ársframleiðslu 1.100 þús. tonn, álver sem fá raforku frá jarðgasi munu framleiða 1.450 þús. tonn og þau sem fá raforku fá kolaorkuverum munu framleiða fyrir tæplega 1 milljón tonn á ári. Það vill svo til að ef byggt er álver sem drifið er með kolum er um 14–15 sinnum meiri losun að ræða en með vatnsafli, með jarðgasi átta sinnum meiri. Það liggur náttúrlega fyrir að ef ekkert verður af neinum framkvæmdum hér á landi verður einfaldlega meira reist af álverum í heiminum sem drifin verða með kolum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að tala um hnattræn áhrif. Að halda því fram að það sé neikvætt fyrir umhverfismál í heiminum að við Íslendingar nýtum okkar vistvænu orku er náttúrlega algjörlega fráleitt. Ég hélt að hv. þingmaður hefði meiri áhuga fyrir hnattrænum áhrifum en eingöngu áhrifum hér á landi. Hann gerir mikið úr því að fólk hittist í New York, það er alveg skelfilegt að hans mati. Það er náttúrlega ekki hægt að vera með þessa einangrunarstefnu sem vinstri grænir eru með. Ég get upplýst hann um að það er engin framkvæmdaáætlun til af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda eru engar slíkar áætlanir í þessu landi. Það var í gamla Sovéthagkerfinu.

Það hefur ekki verið ákveðið neitt í þessu máli endanlega. Það standa yfir samningar (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hv. þingmaður fari nú að skilja það því að (Forseti hringir.) fyrir tíu dögum spurði hann nákvæmlega sömu spurninganna.