132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:47]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir sú niðurstaða að komi til álversframkvæmda norðan lands sé Húsavík besti kosturinn. Það er út af fyrir sig skynsamleg niðurstaða og ágætt að hún liggi fyrir en þar með er bara hálf sagan sögð. Það er afstaða okkar í Samfylkingunni að á næstu tíu árum sé aðeins rými fyrir framkvæmdir í álversmálum upp á 250 þús. tonn og af því leiðir að það er ekki hægt að fara í alla þá uppbyggingu sem nú er í umræðunni. Þær mundu valda óbætanlegum ruðningsáhrifum í hagkerfinu og rúmast ekki innan skuldbindinga okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni vegna þess að það væri ekki hægt að endurnýja loftslagssamninga okkar með sama hætti ef þetta yrði að veruleika.

Forsætisráðherra sagði í tilefni af áliti Fitch Ratings að það væri ekki svigrúm fyrir allar þessar framkvæmdir og nú er komið að því að taka ábyrgð á þeim orðum. Álfyrirtækin verða að fá skýr skilaboð um að hér verði ekki boðið upp á frjálsa nýtingu takmarkaðra auðlinda í lofti eða á láði. En aðalatriði málsins er þó það að okkur liggur ekkert á, það er enginn atvinnubrestur í landinu og ég tel því að nú eigi að gera hlé á ákvarðanaferlinu um ný álver, gera þær náttúrufarskannanir sem nauðsynlegar eru vegna nýtingar jarðvarma og skoða ítarlega alla virkjunarkosti sem til álita koma. Að því loknu á að velja þann kost sem hagkvæmastur er fyrir þjóðina.

Ég tel líka að það eigi að skoða það af fullri alvöru hvort fara eigi nýjar leiðir í þessum málum, að afnema þær ívilnanir sem virkjanir og stóriðjufyrirtæki hafa notið og gera kröfu til þess að greitt verði fyrir aðganginn að náttúruauðlindunum. Það er tímabært að stóriðjuframkvæmdir búi við sömu starfsskilyrði og aðrar atvinnugreinar í landinu.