132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Stóru tíðindin frá því í gær voru þau að Alcoa ætlar að halda áfram að undirbúa álver á Íslandi og taka mið af því að það verði við Húsavík. Þetta eru stóru tíðindin, þetta eru stórtíðindi fyrir Húsvíkinga og þá sem þar búa í nágrenninu en fyrir okkur hin eru þetta ekki stórtíðindi. Þetta eru ekki þannig tíðindi að við þurfum að taka tillit til þess í þeim útreikningum sem við erum að vinna að í fjármálaráðuneytinu því að það liggur engin ákvörðun fyrir í þessum efnum.

Það liggur heldur ekki fyrir ákvörðun um það að stækka eitthvert annað álver og þar af leiðandi höfum við heldur ekki forsendur til þess að taka tillit til þess í útreikningum okkar og langtímaáætlunum. Það er hins vegar athugunarvert að horfa á langtímaáætlanir okkar því þær gera ráð fyrir því að þegar álversframkvæmdum lýkur á þessu ári muni hagvöxtur falla úr 5% í 2,5% á næsta ári og að því er menn best geta spáð verða 2,5% á árunum 2008 og 2009 líka.

Þetta er talsvert minni hagvöxtur en við höfum búið við að jafnaði frá því árið 1995 en einmitt á því tímabili hafa staðið yfir talsvert miklar álversframkvæmdir. Það er stefna ríkisstjórnarinnar og það er stefna Sjálfstæðisflokksins að nýta innlendar orkuauðlindir og að því er unnið eftir því sem kostur er og rétt þykir. Ákvarðanir þarf hins vegar að taka á eðlilegan hátt. Því er rangt hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn sitji á áhorfendabekkjunum.

Það var hins vegar athyglisvert að heyra málflutning formanns Samfylkingarinnar og ég velti því fyrir mér hvort ég og aðrir Hafnfirðingar eigum að skilja málflutning hennar þannig að best sé að hætta við þær samningaviðræður sem Alcan stendur nú í við Landsvirkjun varðandi hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík.