132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það þurfti að sjálfsögðu ekki að koma á óvart að það brytist út mikill fögnuður á Húsavík í gær þegar þessar fréttir bárust. Það er nú einu sinni þannig að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins hefur því miður orðið að sætta sig við vonbrigði á vonbrigði ofan allt of mörg undanfarin ár. Vegna hvers? Jú, vegna gersamlega mislukkaðrar byggðastefnu stjórnvalda, vegna gersamlega mislukkaðrar sjávarútvegsstefnu stjórnvalda þar sem hvert klúðrið hefur rekið annað. Þetta hefur að sjálfsögðu brotið niður byggðirnar og eyðilagt drauma fólks um framtíð og að sjálfsögðu fagnar það því nú þegar talað er um að það eigi að fara út í könnun á því að reisa 250 þús. tonna álver við Húsavík. Það er að sjálfsögðu full ástæða til þess að óska Húsvíkingum og öllum sem búa í Þingeyjarsýslum og á norðaustanverðu landinu til hamingju með þetta. Fólk verður jú að hafa vinnu, fólk verður að geta brauðfætt sig og sína. Þess vegna er það ekkert undarlegt að fólk skuli gleðjast yfir tíðindunum.

Mér finnst hins vegar svolítið undarlegt að horfa upp á ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra í New York í aðalstöðvum erlends auðhrings. Mér finnst það umhugsunarvert. Hvers vegna látum við Íslendingar útlendinga ráða ferðinni í þessum efnum? Hvar eru allir íslensku fjárfestarnir með alla sína milljarða sem nú eru í útrás? Af hverju fjárfesta þeir ekki í álverum hér á landi? Hér er fyrir hendi mikil þekking í framleiðslu á áli. Það eru fyrirtæki sem framleiða hátæknibúnað til að nota í álverum. Af hverju getum við Íslendingar ekki átt þessi álver sjálfir og rekið þau á okkar eigin forsendum og þannig séð til þess að hagnaðurinn af rekstri þessara fyrirtækja verði eftir í landinu, ekki bara tekjur fyrir vinnu og selda þjónustu?