132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:10]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta frumvarp flytur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en 1. flutningsmaður er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og tala ég fyrir því í hans fjarveru.

Þetta frumvarp felur í sér þá breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að heimildir sveitarfélaganna til álagningar útsvars eru rýmkaðar um eitt prósentustig, færðar úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarpið er upphaflega flutt í beinum tengslum við lögfestingu áforma ríkisstjórnarinnar um að halda áfram lækkun tekjuskatts um sama hundraðshluta, þ.e. eitt prósentustig, en samanlagt álagningarhlutfall tekjuskatts og hámarks útsvarsheimildar mun haldast óbreytt nái frumvarpið fram að ganga. Með öðrum orðum erum við einvörðungu að ræða um tilfærslur frá ríki til sveitarfélaga á skattpeningum. Hvergi yrði því um skattahækkun að ræða en lækkunin réðist af því í hve miklum mæli sveitarfélögin nýttu sér aukið svigrúm til útsvarshækkunar á móti lækkun á tekjuskatti til ríkissjóðs. Sams konar frumvarp var flutt á síðasta þingi, þ.e. 131. löggjafarþinginu, í tengslum við þá skattalækkun sem þá var fram undan og tók gildi 1. janúar 2005. Það frumvarp náði ekki fram að ganga. Ekki er síður þörf nú en þá að gripið verði til róttækra aðgerða til að bæta óviðunandi afkomu sveitarfélaganna. Engin varanleg úrlausn er fólgin í þeim takmörkuðu og tímabundnu aðgerðum sem niðurstaða síðustu endurskoðunarnefndar um tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, þá loksins hún leit dagsins ljós í marsmánuði árið 2005, felur í sér. Þær tillögur eru að mestu bundnar við ráðstafanir sem hanga á því að sveitarfélög sameinist og framlögin verði að stærstum hluta tímabundin.

Það er skoðun flutningsmanna að ekki verði undan því vikist að grípa til ráðstafana til að bæta stöðu sveitarfélaganna. Afkoma þeirra, sem vissulega er mismunandi, er í það heila tekið óviðunandi og hefur verið svo lengi. Þannig hafa sveitarfélögin sem heild verið gerð upp með halla og safnað skuldum nokkurn veginn samfellt í einn og hálfan áratug. Og á sama tíma og ríkið hefur létt skuldbyrðinni af sér og greitt niður skuldir hefur hlutskipti sveitarfélaganna, einkum þeirra sem standa verst að vígi, versnað að sama skapi. Teljist ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem vissulega má deila um, hlýtur að vera nærtækast að færa þær tekjur, a.m.k. að einhverjum hluta, yfir til sveitarfélaganna. Á sveitarfélögunum standa miklar og vaxandi kröfur um þjónustu. Þau hafa tekið við ýmsum nýjum verkefnum og fengið á herðar sínar nýjar skyldur, t.d. á sviði umhverfismála sem snerta eftirlit og leyfisveitingar, sem ekki hafa fylgt auknir tekjumöguleikar. Í samskiptum við ríkisvaldið virðist sífellt sækja í það far að það halli á sveitarfélögin.

Með yfirtöku kostnaðarsamra málaflokka hafa sveitarfélögin, hvað sem líður deilum um fullnægjandi tekjustofna á móti, óumdeilanlega fengið með í kaupunum miklar væntingar um úrbætur og aukin útgjöld, eins og sannast í tilviki grunnskólans. Í ýmsum samstarfsverkefnum hallar og á sveitarfélögin með því að ríkið bindur kostnaðarþátttöku sína við framlög á fjárlögum sem oftar en ekki hrökkva hvergi nærri fyrir því kostnaðarhlutfalli sem ríkinu er að nafninu til ætlað að standa straum af. Dæmi um þetta eru húsaleigubætur. Svipaða sögu er einnig að segja af ákveðnum stofnkostnaðarverkefnum þar sem ætlunin er að ríki og sveitarfélög deili kostnaðinum. Óraunhæf kostnaðarviðmið eða norm valda því að ríkið leggur iðulega minna af mörkum hlutfallslega að lokum en ætlunin er, jafnvel samkvæmt lögbundnu kostnaðarhlutfalli. Loks er þess að geta að sveitarfélögin hafa orðið fyrir tekjutapi vegna ákvarðana um mál, óskyld þeim, svo sem um hagstæðara skattalegt umhverfi einkahlutafélaga sem leitt hefur til mikillar fjölgunar þeirra og tekjutaps sveitarfélaganna í formi minni útsvarstekna á móti sem talið er nema milljarði króna eða liðlega það. Þetta var mjög til umræðu á sínum tíma þegar sköttum var breytt.

Svigrúm sveitarfélaganna til sjálfstæðra ákvarðana í uppbyggingu og rekstri og til umbóta, t.d. í félags- og umhverfismálum eða til að hlúa að nýsköpun í almennu atvinnulífi, er afar takmarkað eins og að líkum lætur í ljósi bágrar fjárhagsstöðu þeirra upp til hópa. Tilvist sveitarfélaganna einkennist af varnarbaráttu og sóknarfæri verða fá. Slíkt er óviðunandi því auðvitað þurfa sveitarfélögin að geta þróað og byggt upp þjónustu sína og tekið skref fram á við til eflingar velferðarsamfélaginu sem þau leggja ekki síst grunn að. Sem dæmi um slík verkefni má nefna það baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leikskóladvöl verði gerð gjaldfrjáls með sérstöku samstarfsverkefni sveitarfélaganna og ríkisins, en flutningsmenn þessa frumvarps flytja jafnframt um það tillögu á yfirstandandi þingi. Sama gildir um möguleika þeirra til að bæta kjör starfsmanna sinna og koma til móts við kröfur um launahækkanir, þó réttmætar og nauðsynlegar séu, til að sveitarfélögin geti verið samkeppnisfær um hæft starfsfólk. Sú spennitreyja sem sveitarfélögin eru í að þessu leyti kristallaðist í kennaradeilunni á síðasta ári og í nýafstöðnum samningum við starfsmannafélög innan sveitarfélaganna sem semja við launanefnd sveitarfélaganna. Þar kom í ljós hve misvel sveitarfélögin eru í stakk búin til þess að bæta kjör starfsmanna sinna. Sum sveitarfélög eru mjög aðþrengd hvað þetta snertir, önnur búa við betri kost. Alvarlegast er þó auðvitað að áframhaldandi fjárhagsvandi sveitarfélaganna grefur almennt séð undan þeirri mikilvægu nærþjónustu og þeim umhverfis- og velferðarverkefnum sem sveitarfélögin hafa með höndum. Þannig veikjast undirstöður velferðarsamfélagsins og sveitarstjórnir sjá sig jafnvel knúnar til óyndisúrræða eins og að selja eignir og láta af hendi aðstöðu sem þó er ómissandi fyrir undirstöðu samfélagsþjónustu á þeirra vegum. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með því þegar sveitarfélögin hafa verið að selja frá sér ýmsa grunnþjónustu, nokkuð sem flestum á þeim bæjum hefur verið meinilla við en hafa ekki átt annarra kosta völ en að afla fjár með þessu móti.

Tekjutap ríkissjóðs vegna áformaðrar eins prósentustigs lækkunar tekjuskatts nemur nálægt fimm og hálfum milljarði kr., segir í greinargerð þessa frumvarps, þ.e. brúttó, en fjórum og hálfum milljarði kr. nettó. Sé heimild sveitarfélaganna til hækkunar útsvars aukin að sama skapi og fari úr 13,03% í 14,03%, þá gæfi það sveitarfélögunum svigrúm af sömu stærðargráðu til að auka útsvarstekjur sínar. Síðan er það spurning hvort sveitarfélögin mundu öll nýta þá heimild sem þessi lagabreyting opnaði á. Það er engan veginn víst að þau mundu öll gera það og það hefur verið allur gangur á því hve langt sveitarfélögin hafa gengið hvað þetta snertir. Auknar heimildir til innheimtu útsvars væri þó skref í rétta átt fyrir sveitarfélögin, það mundi auka nokkuð svigrúm þeirra og sjálfstæði hvað varðar tekjuöflun og ef slíkri aðgerð yrði fylgt eftir með breytingum á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs þannig að framlög sjóðsins nýtist til enn frekari tekjujöfnunar og jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaganna gæti það orðið til umtalsverðra bóta. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að auðvitað nýtast sveitarfélögunum misvel eðli málsins samkvæmt heimildir til hækkunar útsvars. Útsvarið er eftir sem áður langstærsti einstaki tekjustofn sveitarfélaganna, og skilar yfir 60% af tekjum þeirra, þannig að eigi að gera umtalsverðar ráðstafanir til að auka tekjur þeirra er erfitt annað en útsvarið komi þar a.m.k. við sögu.

Ég hef stuðst við greinargerð sem fylgir þessu frumvarpi í framsöguræðu minni með frumvarpinu. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir skattkerfisbreytingum á liðnum missirum og enn fleiri eru í pípunum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur varað við þeirri vinnuaðferð sem ríkisstjórnin hefur notað. Við höfum einn flokka haft efasemdir um að lækka skatta, þ.e. að draga úr tekjum ríkis og sveitarfélaga, einfaldlega vegna þess að við viljum hafa fjármuni til ráðstöfunar til að sinna þeim verkefnum sem eru félagsleg í eðli sínu og við viljum að sé á hendi ríkis eða sveitarfélaga og þá þurfum við að sjálfsögðu að sjá þeim fyrir tekjustofnum.

Nú er það svo að ríkið er sæmilega vel haldið nú um stundir og skattalækkanir, þ.e. prósentulækkanir á sköttum, hafa ekki komið að sök. Reyndar hafa menn verið að deila um skattbyrðina og hafa menn þá einnig horft til persónuafsláttar, skattleysismarkanna. Menn hafa bent á að skattbyrðin hafi ekki lækkað með lægri prósentu, einfaldlega vegna þess að skattleysismörkin hafi ekki fylgt launum. Þegar litið er til langs tíma þurfi að horfa einnig til þess þegar skattbyrðin er mæld. Hitt er svo annað mál og um það velkist ég ekki í vafa að sú ríkisstjórn sem nú situr stefnir að því að lækka skatta í landinu og hún beitir þá þeim rökum að lægri skattbyrði þurfi ekki að leiða til minni skattheimtu þegar upp er staðið. Þetta eru röksemdir sem vert er að ræða og alltaf spurning hvar eigi að finna skurðarlínuna en ég bendi á að við megum ekki láta blindast af því ástandi sem við búum við nú, miklar skatttekjur ríkissjóðs, vegna þess að það eru að hluta til nokkuð sem kallað hefur verið þensluskattar sem þessu valda. Mjög mikill innflutningur skilar t.d. verulegum tekjum í ríkissjóð. Ef hann síðan drægist saman, ef okkur tækist með öðrum orðum að minnka viðskiptahalla þjóðarinnar, sem er hættulega mikill eins og við vitum, þá mundu tekjur ríkissjóðs dragast saman að sama skapi. Þá er spurningin: Hvar höfum við stillt skattamörkin, hvar höfum við stillt skatttekjurnar, hversu traustir eru tekjustofnarnir? Rísa þeir undir þeim skuldbindingum sem við viljum leggja á samfélagið, hvort sem er ríki eða sveitarfélög?

Þarna viljum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fara mjög varlega enda leggjum við áherslu á að ríki og sveitarfélög séu vel í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað að gera. Við leggjum áherslu á að hlutur sveitarfélaganna hefur verið vanræktur hvað þetta snertir í seinni tíð og það er kannski sérstök ástæða til að velta því fyrir sér núna þegar menn eru að ræða um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni að það er einmitt þarna sem skórinn kreppir, þ.e. í fjárhagsvanda sveitarfélaganna á landsbyggðinni. Það er einmitt þar sem sveitarfélögin búa við erfiðastan kost. Okkar frumvarp miðar að því beinlínis að bæta kjör þessara sveitarfélaga.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þetta frumvarp gangi til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.