132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Meginefni þessarar tillögu, sem hér er flutt af hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er að heimila hækkun á útsvari. Ástæðan fyrir þessari tillögu er öllum auðsæ. Hún felst í því að á síðustu árum hefur ríkið ekki staðið við fyrirheit um aukna tekjustofna sveitarfélaganna. Við höfum séð langdregnar samningaviðræður millum fulltrúa sveitarfélaganna og ríkisvaldsins á stundum við það að renna út í sandinn. Þegar lyktir urðu í því samningaþrefi var niðurstaðan þannig að ég tel að sveitarfélögin beri áfram mjög skarðan hlut frá borði. Þetta veldur því að sveitarfélögin eru rekin með vaxandi erfiðleikum í fjárhagslegu tilliti. Mörg þeirra eru ákaflega skuldsett. Flest þeirra, fyrir utan þau allra stærstu, þurfa að verja langstærstum hluta tekna sinna í þjónustu við íbúana. Eftir því sem fleiri verkefni færast yfir til sveitarfélaganna aukast líka kröfurnar á að bæta gæði þeirrar þjónustu. Við sjáum það t.d. í grunnskólanum. Hann var færður yfir. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs Bjarnasonar að að líkindum hefðu sveitarfélög verið hlunnfarin í þeim flutningi. Það er hugsanlegt. Þau sættust þó á þetta á sínum tíma. En síðan þetta gerðist hafa kröfur íbúanna í sveitarfélögunum um bættan skóla aukist. Vegna þess að það er skemmra milli þeirra stjórnmálamanna sem taka ákvarðanir um þá þjónustu og þeirra sem njóta hennar er auðveldara fyrir íbúana að hafa áhrif. Þetta hefur leitt til þess að t.d. hér í Reykjavík, undir forustu Reykjavíkurlistans og þeirra flokka sem að honum standa, þá hefur grunnskólinn stórbatnað. Þetta þekki ég sem er foreldri tveggja lítilla telpna í einum af þessum skólum. Ég ber það ekki saman hvað það miklu meira lagt sérstaklega í þau börn sem hafa ákveðnar sérþarfir. Ég fagna því. En þetta kostar peninga. Það er þess vegna ekki síst að sveitarfélögin hafa verið að óska eftir auknu fjármagni.

Aðrar breytingar hafa líka gerst fyrir tilverknað ríkisins sem hafa leitt til tekjufalls sveitarfélaga. Ég var nú einn af þeim sem ekki voru alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni og fleirum í hans flokki um að liðka til fyrir stofnun einkahlutafélaga. Ég samþykkti það á sínum tíma en ég gerði mér hins vegar grein fyrir þessu. Ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bentum margsinnis á að þetta mundi leiða til ákveðins tekjufalls fyrir sveitarfélögin. Útsvarið sem þau fá í greiðslur minnkar. Það er einfaldlega svo. Það verður að meta að þetta sé um það bil 1,3–1,5 milljarðar á ári sem þetta þýðir í tekjutap. Það er alveg gríðarlega mikil breyting. Það er biti sem klípur verulega.

Þess vegna hygg ég að þeir þingmenn sem flytja þessa tillögu séu að velta fyrir sér ákveðnum möguleikum í að auka tekjustofnana. Menn hafa goldið varhuga við því. Hv. þm. Pétur Blöndal virtist vera því mjög andsnúinn og það er í stíl við skattstefnu Sjálfstæðisflokksins og viðhorf hans til þjónustu við íbúana. Ég velti því samt fyrir mér hvort það sé ekki rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var að segja hérna. Á ekki að draga úr forræðishyggju ríkisins gagnvart sveitarfélögum og láta hina kjörnu fulltrúa standa frammi fyrir kjósendum með þær ákvarðanir sem þeir taka? Það er hin lýðræðislega aðferð til að finna meðalhófið milli góðrar þjónustu og viðunandi skattstigs. Ég held t.d. að það væri hugsanlegt að fara þarna eitthvert ákveðið millistig. Innan Samfylkingarinnar höfum við stundum verið að ræða það að veita eigi heimild til sveitarfélaga til að hækka útsvar tímabundið til að standa fyrir ákveðnum stórverkefnum, t.d. byggingu íþróttahúss eða byggingu einhverra annarra mannvirkja sem íbúarnir telja þörf á. Þá yrði um að ræða tímabundna heimild, hún yrði tímasett áður en að ákvörðun er tekin og menn yrðu að standa við það. Ef slík tímabundin hækkun veldur síðan úlfúð í byggðarlaginu og mætir andstöðu þeirra sem þar búa kemur það væntanlega fram í næstu kosningum þar á eftir.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með athyglisverða hugmynd um að í reynd ætti að leggja fram tvær tillögur að fjárhagsáætlun á hverju ári. Íbúar gætu þá valið á milli. Þetta er tillaga sem er í reynd í ætt við beint lýðræði, hún er stig að beinu lýðræði. En þó ekki eins og ég get fellt mig við. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram bæði hugmyndir og tillögu, reyndar þingsályktunartillögu og jafnvel frumvarp, um að beint lýðræði verði tekið upp eða skref stigin í átt að því innan sveitarfélaga. Þá gætu íbúarnir með beinum hætti tekið mikilvægar ákvarðanir um mál sem varða þá miklu, stefnumótandi ákvarðanir í stórum málaflokkum. Við höfum t.d. nefnt umhverfismál, skipulagsmál og gæði skólaþjónustu. Við höfum líka reifað þann möguleika í tengslum við umræðuna um breytingu á stjórnarskrá, þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefur mjög komið til umræðu, að svipað ákvæði væri hugsanlega sett til að vernda rétt íbúanna að þessu leyti í sambandi við stjórnarskrána. En ég og ég held flestir sem hafa tekið þátt í umræðum um beint lýðræði af þessu tagi höfum alltaf dregið mörkin við eina ákveðna forsendu. Menn eiga t.d. ekki að fá að greiða atkvæði, teljum við, um fjárlög íslenska ríkisins. Sú afstaða hefur komið fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Að sama skapi er ég þeirrar skoðunar að ef menn fara þessa leið varðandi stjórn ríkisins eigi að reisa sömu skorður varðandi stjórn sveitarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja slíkar ákvarðanir í beina atkvæðagreiðslu sem fella mætti undir allsherjaratkvæðagreiðslu. Ég tel hins vegar að þetta skref hv. þm. Péturs H. Blöndals sé mjög áþekkt slíku.

Ég rifja það aðeins upp, frú forseti, að í Bandaríkjunum, þar sem ég hef skoðað mjög rækilega með hvaða hætti beint lýðræði er iðkað, er eitt mjög áberandi. Eftir að teknar voru upp í vaxandi mæli beinar kosningar um einstök mál, í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem kjósendur hafa farveg til að krefjast atkvæðagreiðslu um nánast hvaðeina, blasir ein tilhneiging við. Hún kom strax fram í Kaliforníu þar sem þetta var fyrst á dagskrá og fyrst iðkuð með vel útfærðum hætti. Upp koma hreyfingar og hópar sem berjast fyrir því að draga úr skattheimtu og fylgifiskur þess er alltaf minni þjónusta. Þar sem menn hafa með þessum hætti getað greitt atkvæði um skattstefnu, og það felst í reynd í hugmynd hv. þm. Péturs Blöndals, kemur í ljós að það er mjög auðvelt að fá íbúana til að fallast á það. En það kostar hins vegar mjög mikið varðandi réttindi ýmissa annarra sem oft búa við lítil efni. Það kemur t.d. í ljós í þessum ríkjum að þar eru gæði menntunar ekki jafnmikil og áður. Þar hefur dregið úr gæðum skólakerfisins vegna þess að skólakerfið er eitt af því sem dregur til sín mesta fjármagnið. Þessi þróun er því að sjálfsögðu heppileg fyrir þá sem hafa, sérstaklega í Bandaríkjunum, afl auðmagnsins til að berjast opinberlega í harðvítugri auglýsingabaráttu fyrir málum af þessu tagi. Þeir sem hugsanlega gjalda þess á hinum endanum, þeir sem eru ungir, fátækir, í lægri þjóðfélagsstigum launalega, þeir gjalda þessa. Þá erum við komin að spurningunni um jafnræði og rétt meiri hlutans til þess beinlínis að draga úr lífsgæðum minni hlutans sem er efnalítill. Ég tel alla vega rétt að draga þetta inn í þessa umræðu því mér finnst ástæða til að gjalda varhuga við því að við fetum inn á þá braut sem kom fram hjá þessum hv. þingmanni, braut sem felur í sér áfanga að allsherjarkosningu íbúa um fjárhagsáætlun og þar með skattstefnu. Það er utan við þau mörk sem við höfum rætt hér í þessum sölum þegar við höfum talað um allsherjaratkvæðagreiðslu, hvort sem er innan sveitarfélaga eða á vettvangi þjóðarinnar allrar.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa tjáð sig opinberlega, t.d. um þjóðaratkvæðagreiðslur, hafa jafnan látið þann botnlanga fylgja að þá kæmi að sjálfsögðu sterklega til greina að undanþiggja ákveðna hluti eins og fjárlög ríkisins. Þar er ég þeim sammála og þar dreg ég mörkin. Þess vegna er ég andstæður þessari hugmynd. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli eigi að auka forræði sveitarfélaganna yfir eigin hag. Ég lagði hér áðan fram þá hugmynd að hugsanlega væri hægt að fara þarna ákveðinn milliveg og leyfa sveitarfélögunum að hækka útsvarsheimtur vegna tiltekinna verkefna sem standa í tiltekinn tíma. Ég held að mætti alveg skoða það rækilega.

Að lokum, frú forseti, vil ég taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni: Það sem skiptir auðvitað mestu máli fyrir þá íbúa í landinu sem búa í litlum sveitarfélögum er að þau stækki og verði fær um að taka við auknum verkefnum. Það eru margvísleg verkefni sem bíða. Ég er t.d. í hópi þeirra þingmanna sem telja að það sé brýnt að leysa ákveðna kreppu sem er á vissum stigum framhaldsskólakerfisins með því að færa hann yfir til sveitarfélaganna. Ég tel að reynslan af grunnskólunum gagnvart neytendum, þeim sem njóta menntunarinnar á skólastiginu, sé það jákvæð að mér finnst þetta einboðið. En þá þarf með einhverjum hætti að flytja tekjustofna frá ríkinu á móti en mér finnst algerlega skorta umræðu um það atriði. Ég tók eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kom hér í stólinn um daginn og talaði fjálglega um að hún vildi gjarnan skoða þá hugmynd að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna. Með svipuðum hætti tala margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins af því að þeir vita að það fellur í góðan jarðveg. En þeir hugsa málið aldrei til enda. Þeir ræða aldrei hinn hlutann, hvernig á þá að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaganna? Hvernig á að flytja fjármagnið á milli þessara tveggja valdstiga? Það er eitt af því sem við þurfum að ræða í tengslum við þessa hluti.

Ég vildi nota tækifærið út af þessari ágætu tillögu frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem vakti mig og marga til umhugsunar, til að reifa þessi atriði.

(Forseti (RG): Forseti vill vekja athygli þingmanna á að umræddur tími er nú liðinn sem ætlaður var til þessarar umræðu. En þar sem eingöngu tveir eru á mælendaskrá ætlar forseti að biðja þingmenn, þá sem eru á mælendaskrá, að taka tillit til þess.)