132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:54]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Af því tilefni að forsetinn hefur gert mönnum viðvart um að tiltekinn tími sem er ætlaður til umræðunnar sé liðinn vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég er ekki aðili að slíku samkomulagi. Það gerði enginn slíkt samkomulag fyrir mig. Þetta var rætt í mínum þingflokki fyrir röskri viku þegar svipaður háttur var hafður á. Þá voru þau skýru boð færð inn í þann þingflokk að hér væri einungis um eitt afmarkað tilvik að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt að hægt sé að nota þetta til að ryðja mönnum út af mælendalista eins og var gert í síðustu viku, þar sem ég m.a. tók mig út af mælendaskrá í máli nokkurra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins af því ég vildi ekki verða til að deyða það mál hér vegna þessara tímamarka. Ég er á móti þessu og vil að það komi alveg skýrt fram að það mun enginn semja fyrir mig um slíkt.