132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:44]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur þróast inn á mjög undarlegar brautir bölbæna í garð Íbúðalánasjóðs sem er mikil þjóðþrifastofnun og landsmönnum mikilvæg, ekki síst almennu launafólki. Mestu máli skiptir hún fyrir þá sem búa í dreifðum byggðum landsins og fengu að kynnast því þegar bankarnir buðu 100% lán, að þeir mismunuðu fólki eftir búsetu. Þá var talað um traust veð og ótraust veð. Við erum að sjáum fram á nýja einokunartíð renna upp. Bankarnir, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hrósar í hástert, gera kröfu um að gleypa viðskiptavini sína með húð og hári. Þú færð 100% lán svo fremi sem þú kemur með öll viðskipti þín inn í bankann, þar á meðal lífeyrissparnað, séreignarsparnað o.s.frv. Þetta eru hinir nýju viðskiptahættir sem hv. þingmaður rómar og tengir bölbænum sínum í garð Íbúðalánasjóðs sem Sjálfstæðisflokkurinn og sérstaklega hægri vængur hans vill feigan. Það er nokkuð sem við látum ekki yfir okkur ganga baráttulaust. Það mega menn vita.

Síðan upphófst hið gamla fornaldartal um hina illu ríkisbanka og allt sem er ríkistengt. Þá var nú öldin önnur er ríkisbankar voru við lýði. Ég vil minna á að ríkisbankarnir lifðu sjálfstæðu lífi. Þeir fengu að vísu, Landsbankinn, í byrjun 10. áratugarins lán frá ríkinu, sem var greitt, allt saman, hver einasta króna og verðtryggð til baka. Hún var tryggð. Ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal hristir höfuðið. Ég fá að heyra hann segja að svo hafi ekki verið. Ég staðhæfi að það hafi verið greitt til baka. Við höfum séð hvað gerst hefur eftir að ríkisbankanna nýtur ekki lengur við.

Á síðari hluta 20. aldarinnar ríkti hugsunin um samstöðu í þjóðfélaginu, ekki bara í bankakerfi heldur í ýmsum þjóðþrifastofnunum og fyrirtækjum sem sett voru á laggirnar. Óskabarn þjóðarinnar vil ég nefna, Eimskipafélagið. Það sinnti siglingum í kringum landið. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Nú er það svo að nýir eigendur segjast ekki lengur vera skipafélag. Það borgar sig frekar að fjárfesta í útlöndum. Þeir eru bara fjárfestingarhópur. Ein grúppan enn og sama gildir á öðrum sviðum. Ég held að menn eigi að fara svolítið varlega og ganga hægt um gleðinnar dyr þegar þeir tala um ágæti hinna nýju einkavæddu banka. Þar skulum við fara varlega í yfirlýsingum þótt ég voni sannarlega að þessir bankar muni pluma sig, okkur öllum til hagsbóta. En ég vísa út af borðinu þessum pólitísku dagdraumum hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Hann segir að þetta frumvarp sé of seint á ferðinni. Hann vísar í árin 1982, fyrstu áranna á 9. áratugnum, að gott hefði verið að hafa frumvarp af þessu tagi þá. Ég minnist yfirlýsingar frá tveimur ágætum mönnum úr fjármálalífinu á þeim tíma. Annar var hv. þm. Pétur H. Blöndals sem var þá sennilega eigandi og stjórnandi í Kaupþingi, nýju fyrirtæki. Hinn einstaklingurinn sem ég var að hugsa til var seðlabankastjórinn á þeim tíma, Jóhannes Nordal. Þeir sögðu báðir, ég man þetta vel, að af verðtryggðum lánum ættu vextir ekki að vera meira en um 2%. Ég man þetta vel.

Með það í huga að vextir af verðtryggðum lánum ættu ekki að vera meira en 2% þá fletti ég því upp áðan, hver prósentutalan væri almennt í útlánum á verðtryggðum lánum. Þar kom upp talan 5%. Enn búum við því við hátt vaxtastig í landinu. Við skulum ekki gleyma því. Það eru engir sérstakir kraftaverkamenn á ferðinni hér á landi hvað þetta snertir vegna þess að alls staðar í heiminum hafa vextir verið á niðurleið. Bæði vestan hafs og austan hafa vextir verið á niðurleið. En það má ekki gleyma því að vaxtastigið á Íslandi er hærra en gerist í Evrópu og í Bandaríkjunum. Það veldur m.a. miklum fjármagnsflutningum þar sem fjárfestar nýta sér vaxtamuninn. Þess vegna hefur um 200 milljörðum kr. verið pumpað í íslenska fjármálakerfið og er það rakið til þessarar staðreyndar sem slíkrar.

Hvort þetta frumvarp er óður til verðtryggingarinnar, eins og hv. þingmaðurinn sagði, vil ég ekki segja til um. Það er eiginlega óður til fordómaleysis. Þetta er óður til þess að skoða málin út frá hagsmunum lánveitandans og lántakandans með það að markmiði að hafa vaxtastigið eins lágt og kostur er. Það tel ég vera verkefnið. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að þótt við náum því fram með verðtryggingunni að halda raunvaxtastiginu á hverjum tíma lægra, það sýna rannsóknir, en á óverðtryggðum lánum þá er hinu ekki að leyna að þegar dæmið er gert upp allt í heild sinni, þegar lánið hefur verið greitt upp að lokum, hefur vaxtagreiðslan verið hærri af verðtryggðum lánum en öðrum.

Þetta eru hlutir sem ég tel að þurfi að skoða á fordómalausan hátt. En þetta frumvarp gengur einvörðungu út á að banna lánveitendum að vera með í senn, verðtryggingu og breytilega vexti, en þó með þeim takmörkunum sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu, að óheimilt sé að breyta til hækkunar vöxtum af lánum sem eru verðtryggð en heimiluð lækkun á lánum. Fyrir þessu hef ég gert grein fyrir áður. Ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni, hv. þm. Pétri Bjarnasyni frá Frjálslynda flokknum og hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ágætt framlag þeirra til þessarar umræðu.