132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:54]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir framlag hans til umræðunnar. Ég er hjartanlega sammála því sem fram kom hjá honum. Auðvitað er það mikið áhyggjuefni fyrir Íslendinga að vaxtastig á lánum skuli vera þetta miklu hærra hér á landi en annars staðar. Það verður þess m.a. valdandi að fjárfestar flytja peninga sína inn í landið til ávöxtunar og hirða vaxtamuninn.

Við höfum tengt það stóriðjustefnunni að hluta til en áhættan sem lánveitandinn tekur, þ.e. hinn erlendi fjárfestir eða fjármagnseigandinn, er krónan. Ef hún fellur í verði rýrna þessir innfluttu peningar að sama skapi, meðan þeir eru til ávöxtunar í landinu. Yfirlýsingar stjórnvalda um áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu þýða í reynd áframhaldandi ríkistryggða eftirspurn eftir gjaldmiðlinum, sem aftur þýðir hátt gengi sem þýðir aftur grænt ljós á meiri innflutning á fjármagni til landsins til að nýta sér vaxtamun í landinu.

En þetta er útúrdúr í mínu máli og kemur ekki við hugleiðingum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, en þeim er ég hjartanlega sammála.