132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:58]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sannfærður um að það sé allra meina bót að afnema verðtryggingu. Mér finnst verkefnið að finna leið til færa vaxtastigið niður. Það skiptir máli. Þeir raunvextir sem lántakandinn greiðir af láni sínu. Við skulum ekki gleyma því að þegar menn fóru t.d. út í verðtryggingu á afmörkuðum sviðum í Bretlandi á sínum tíma var það gert beinlínis til að reyna að ná raunvöxtunum niður. Til að lækka vextina. Yfirleitt hefur þetta verið hugsað til að koma á jafnvægi og ná vöxtunum niður. Komi hins vegar í ljós að svo sé ekki, en við höfum ekki skýrslur sem benda í þá átt, er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að skoða það. Ég ítreka þá fyrirvara sem ég setti fram í máli mínu, að þó það geti verið hagstæðara fyrir einstakling sem hefur litlar tekjur að stilla vöxtunum í hóf og samræma þá greiðslugetu hans á hverjum tíma, hugsanlega með verðtryggðum lánum þá neita ég því ekki að þegar upp er staðið, þegar málið er gert upp í lok langs tíma og hefur verið greitt upp að fullu, hefur viðkomandi hugsanlega greitt hærri vexti en hann hefði gert ella. Það er alveg rétt.

En við verðum líka að horfa til greiðslugetunnar á hverjum tíma. En varðandi samkeppni við erlenda banka þá er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði. Það var einmitt það sem vakti fyrir mönnum þegar Búnaðarbankinn var seldur á sínum tíma. Þá stóð til að fá þýskan banka inn í kaupin. En það á eftir að koma í ljós hvort sá banki kom þar nokkurn tíma við sögu. En það er innskot í umræðuna þar sem vísað var í samkeppni erlendra banka á lánsfjármarkaði.