132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[16:02]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sá Íbúðalánasjóði allt til foráttu og vildi hann út af markaði, það sagði hann alveg tvímælalaust. Ég vil minna á að Íbúðalánasjóður er sjálfbær sjóður, hann rís algjörlega undir sjálfum sér. Það er að sjálfsögðu háð þeim veðum sem hann býr yfir á hve hagkvæmum kjörum hann getur aflað lánsfjár. Ef hins vegar leið Sjálfstæðisflokksins verður farin, að láta hann einvörðungu sýsla með þau veð sem eru ótrygg í dreifðum byggðum eða hjá fólki sem býr við félagslega erfið skilyrði þá verða kjörin sem Íbúðalánasjóður aflar lánsfjár á þeim mun lakari. Ætlast þá hv. þingmaður til að skattborgarinn komi til sögunnar á meðan bankarnir fleyta rjómann af viðskiptum við þá sem búa við betri kjör í þjóðfélaginu?

Að bankaráðsmenn hafi verið pólitískt kjörnir, þetta er notað sem hnjóðsyrði og eitthvað slæmt og illt, að lýðræðislega kjörið fólk skuli fengið til að stýra stofnunum á vegum samfélagsins, ég tek ekki undir svona tal. Ég spyr: Líður hv. þingmanni eitthvað betur ef allir þeir sem ráða fjármálafyrirtækjum eru í einum og sama flokknum? Er það það sem hann vill frekar? Er það minni spilling eins og hann kallar?

Vextir hér á landi eru háir. Hv. þingmaður talar um að þeir hafi hrapað niður. Árið 2004 voru hæstu vextir á verðtryggðum skuldabréfalánum 11,5%. Þeir eru ekki mikið lægri núna. Í janúar voru þeir 10,8%. Lægstu vextir í lok janúar 2004 (Forseti hringir.) voru 5,6% en í janúar árið 2006 4,15%, ívið lægri en háir þó.