132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[16:06]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er ég að tala fyrir slíkri tíð eða slíkum háttum og alls staðar í heiminum hefur orðið breyting hvað þetta snertir. Alls staðar í heiminum, það er ekkert einsdæmi á Ísland, er offramboð á fjármagni til lánveitinga. Við erum að upplifa hvað það þýðir fyrir þjóðfélag okkar og efnahagskerfi þessi innspýting á útlánum til samfélagsins, til einstaklinga sem eru hvattir til að eyða og spenna og hefur skilað sér núna í viðskiptahalla sem nemur 15% af landsframleiðslu, um 150 milljörðum kr. En ég vil að sjálfsögðu engar biðraðir og ég vil bæta hag lántakenda, að sjálfsögðu. Ég ítreka að hér eru mjög háir vextir enn og sú gósentíð sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsir eftir einkavæðingu bankanna birtist ekki í þeim vaxtatölum sem eru að birtast í fjölmiðlum og á seðlunum sem fólk er að fá heim til sín nú um stundir.

Ég vek athygli á að sá aðili sem á stærstan þátt í að keyra niður vextina og halda bönkunum við efnið er Íbúðalánasjóður, það er hið opinbera. Ég hugsa með hryllingi til þess að ef því aðhaldi sem kemur frá Íbúðalánasjóði og hefur komið frá Íbúðalánasjóði yrði svipt brott mundi það hafa þau áhrif að vextir mundu hækka, ég er alveg sannfærður um það. Vextirnir voru lækkaðir þá fyrst held ég 15 dögum eftir að ESA kvað upp úr um að vísa kæru bankanna á hendur Íbúðalánasjóði frá. Þá fyrst lækkuðu þeir vexti til að reyna að koma Íbúðalánasjóði út af markaði. Þetta eru nú staðreyndir málsins.