132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Fullvinnsla á fiski hérlendis.

212. mál
[16:08]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Flutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og mögulegar leiðir til að draga úr honum og auka í staðinn fullvinnslu innan lands. Ráðherra birti Alþingi niðurstöður sínar og tillögur eins fljótt og unnt er.“

Tillagan var lögð fram á þingi í fyrravetur en komst þá ekki á dagskrá og var lögð fram í haust lítið breytt en fylgiskjöl voru þá uppfærð eins og gögn lágu þá fyrir. Síðan hefur tillagan legið og ekki komist á dagskrá fyrr en nú þó svo að hún hafi verið lögð fram fyrstu dagana í október og mál hafa svo sem þróast áfram með líkum hætti og hér verður rakið í greinargerðinni og staðan síst betri hvað varðar fiskvinnslur sem byggja á því að sækja fisk á markaði.

Eins og stendur í greinargerðinni og ég ætla hér að flytja, frú forseti, jókst útflutningur á óunnum fiski í gámum á fiskmarkaði erlendis frá árinu 2002 úr rúmlega 21 þús. tonni í rúm 43 þús. tonn árið 2004 og nam á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 tæpum 27 þús. tonnum. Útflutningur þessi hefur verulega neikvæð áhrif á þjóðarbúið enda ljóst að unnt væri að auka útflutningsverðmæti þessa afla umtalsvert ef hann væri unninn hér á landi. Hráefnisskortur er viðvarandi vandamál í íslenskri fiskvinnslu, ekki síst hjá þeim fyrirtækjum sem reka fiskvinnslu án útgerðar og treysta því algjörlega á nægt framboð af fiski á íslenskum fiskmörkuðum. Þegar fiskur er fluttur óunninn á fiskmarkaði erlendis hafa íslenskir fiskverkendur enga möguleika til að bjóða í hann. Segja má að jafnræði íslenskra fiskkaupenda gagnvart erlendum fiskkaupendum, sem og samkeppnisstaða þeirra, sé skert að þessu leyti. Þegar útflutningur á óunnum fiski er orðinn eins mikill og raun ber vitni hefur hann mjög neikvæð áhrif á möguleika fiskvinnslufyrirtækja til viðgangs og vaxtar. Þetta er sérstaklega bagalegt í því ljósi að virðisauki í vinnslu sjávarafurða hefur verið með mesta móti hjá þeim fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu án útgerðar auk þess sem þessi fyrirtæki hafa í mörgum tilvikum verið í fararbroddi við að vinna nýja markaði fyrir hágæða íslenskan fisk í hæsta verðflokki.

Spyrja má hvað valdi því að óunninn fiskur sé fluttur úr landi í þessum mæli. Margir hafa haldið því fram að orsakanna megi leita í ólíkum vigtunarreglum og svokallaðri yfirvigt sem tíðkast á erlendum fiskmörkuðum. Að minnsta kosti virðist ekki eingöngu unnt að skýra hinn mikla útflutning með vísan til þess að hærra verð fáist fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum enda hefur fiskverð verið mjög hátt á fiskmörkuðum hérlendis undanfarin ár. Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra kanni hvaða undirliggjandi ástæður og orsakir séu fyrir þessum mikla útflutningi og komi með tillögur til úrbóta.

Í sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er komið inn á þetta, m.a. með eftirfarandi hætti, með tilvitnun í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum, með leyfi forseta:

„Auk þess sem hér er talið upp má nefna að skoða þarf sérstaklega aðstöðumun landvinnslu og sjóvinnslu með það fyrir augum að finna leiðir til að jafna þann mun, auka alhliða menntun á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og stuðla að fullvinnslu alls sjávarfangs. Þá þarf að tryggja nýliðun í greininni og huga sérstaklega að þjálfun verðandi sjómanna. Einnig ber að setja reglur um að allur afli, sem ekki fer beint til vinnslu hjá sama aðila og veiðarnar stundar, skuli fara á markað til að auðvelda aðgang innlendrar fiskvinnslu að öllu því hráefni.“

Íslenskur fiskmarkaður hefur verið í mikilli framþróun á síðustu árum. Með upptöku fullkomins uppboðskerfis er nú unnt að stunda viðskipti á honum með hjálp netsins, hvar sem er í heiminum. Þannig standa kaupendur erlendis jafnfætis öðrum þegar uppboð fara fram. Er það álit flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu að eðlilegast væri að allur sá fiskur sem nú er fluttur á erlenda fiskmarkaði færi þess í stað á íslenskan fiskmarkað enda væru möguleikar erlendra fiskkaupenda til að bjóða í og kaupa íslenskan fisk og flytja hann út óunninn til vinnslu eða sölu ekki skertir. Hins vegar hefðu íslenskir fiskkaupendur þá alltaf möguleika á að bjóða í fiskinn í samkeppni við aðra.

Ótvírætt er að það þjónar hagsmunum Íslendinga að sem mest af þeim fiski sem veiddur er hér við land sé jafnframt unninn hér á landi. Alþingi og stjórnvöldum ber að haga lögum og reglum þannig að jafnræði og samkeppnisstaða íslenskra fiskverkenda sé trygg til að svo geti orðið.“

Þetta er hin almenna greinargerð sem fylgir þessari þingsályktunartillögu og eins og ég segi þá hefur ýmislegt breyst og ýmis gögn komið fram sem hvetja enn frekar til þess að fiskur komi á fiskmarkaði og fiskvinnslur sem reiða sig á fisk af fiskmörkuðum eigi þar greiðari aðgang.

Það er margt að gerast, m.a. útflutningur á óunnum fiski eins og hér er rakið. En samþjöppun á aflaheimildum á stöðugt færri hendur þýðir að það eru færri aðilar sem leggja upp á markað. Fiskmarkaðirnir hafa vissan hluta ársins kannski að stórum hluta verið bornir uppi af bátum sem voru annaðhvort í sóknardagakerfi eða úr minni bátaflotanum. Þróunin á síðasta ári og það sem af er þessu ári gengur mjög hratt í þá veru að þessum bátum fækkar. Aflaheimildirnar renna inn á stærri skipin og á færri hendur og jafnvel inn á útgerðaraðila sem eru annaðhvort mjög stórtækir í útflutningi á gámafiski eða halda þessum fiski fyrir sjálfa sig í eigin fiskvinnslum með þeim hætti að stöðugt minnkar það framboð sem kemur á markað fyrir minni fiskvinnslur.

Þetta hvort tveggja er, eins og ég hef rakið hér, mjög óheppilegt. Til viðbótar kemur svo sú staða fiskvinnslunnar að berjast í hinu gríðarlega háa gengi, samkeppnisstaðan sem látin er dynja á fiskvinnslunni, á útflutningsgreinunum — afleiðing af ruðningsáhrifum stóriðjustefnunnar sem bitnar einstaklega hart á fiskvinnslum sem að stórum hluta reiða sig á fisk á markaði og reyndar á fiskvinnslunni allri. Það er svo sem táknrænt, frú forseti, að við vorum í morgun að ræða áhrif af hugsanlegum nýjum álframkvæmdum og forsætisráðherra Framsóknarflokksins kom hér og lýsti því að stefna Framsóknarflokksins yrði áfram sú að fjölga álverum, halda genginu háu og ryðja burt öðrum atvinnugreinum með ríkisvæddri álstefnu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Ál á alla firðina.) Ál á alla firði er stefna Framsóknarflokksins ef hann fengi að ráða. Við minnumst skilaboðanna sem álráðherra Framsóknarflokksins sendi Vestfirðingum þegar verið var að loka fiskvinnslunum þar, hverri á fætur annarri, og fólk var að missa atvinnu sína. Ekki nóg með það heldur var verðmætaaukning fisksins sem við vorum að veiða skert, það var dregið úr henni. Fiskurinn var í auknum mæli fluttur óunninn úr landi þannig að sú verðmætasköpun sem við eigum möguleika á í fiskinum er kastað fyrir róða fyrir álæði ríkisstjórnar Framsóknarflokksins, þessu nærri því öfgafulla álæði. Frú forseti, ég held að það megi að segja að þetta öfgafulla álæði Framsóknarflokksins bitni hart á fiskvinnslunni.

Frumvarpið, sem ég flyt ásamt fleiri þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, miðar að því í fyrsta lagi að benda á slæma stöðu fiskvinnslunnar í hinni öfgafullu álæðisstefnu Framsóknarflokksins og í öðru lagi að benda á það að fiskvinnslustöðvarnar fái jafnan rétt og erlendir aðilar til að bjóða í fiskinn hér á landi. Að fiskurinn sé ekki fluttur óunninn í gámum úr landi án þess að gefa íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum tök á að bjóða í hann — því að það er náttúrlega fráleitt að halda að íslenskar fiskvinnslur geti farið að bjóða í íslenskan fisk á markaði í Cuxhaven eða Hull.

Frú forseti. Með þessari tillögu fylgja töflur sem sýna í tölum þróun á gámaútflutningi, flutningi á óunnum fiski á síðustu árum. Sú þróun hefur í sjálfu sér haldið áfram þó svo að tölurnar séu að breytast innbyrðis á þessu ári. Hér er einnig hluti úr skýrslu frá aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem rakið er ítarlega hve þessi staða er ósanngjörn gagnvart fiskvinnslunni í landinu, að geta ekki boðið í fiskinn á jafnréttisgrunni, að leyfilegt sé að flytja hann úr landi án þess að farið sé með hann á markaði hér. Í öðru lagi er fjallað um þá staðreynd að fiskveiðiheimildirnar eru stöðugt að safnast á færri og færri hendur sem þýðir að það eru færri og færri sem véla um vinnslu aflans. Aflanum er landað og fer til vinnslu að því marki sem vinnsla er enn hér á landi, fer á æ færri staði á landinu.

Í þessu sambandi er líka rétt að hafa í huga að þessar fiskvinnslur, eins og ég benti hér á áðan, hafa verið brautryðjendur í nútímatækni, í að þróa nýjar afurðir varðandi fiskinn og vinna nýja sérhæfða og dýra markaði sem þessir stóru aðilar hafa síðan troðið sér inn á eftir á. Þetta er því á margan hátt mjög óheppileg þróun gagnvart þessum mikilvæga atvinnuvegi og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla fiskvinnsluna, standa á bak við fiskvinnsluna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að verðmætasköpunin sé eins mikil og nokkur kostur er hér á landi á þessari dýru auðlind, sem er jú að stórum hluta undirstaða atvinnulífs og efnahagslífs þjóðarinnar. Ekki veitir heldur af að auka og styrkja útflutningsgreinarnar, útflutningsverðmætið, miðað við þær tölur sem við stöndum nú frammi fyrir með 15% viðskiptahalla, 150 milljarða viðskiptahalla á síðasta ári. Og viðskiptahallinn stefnir í annað eins á þessu ári og verði áfram af þessari stefnu ríkisstjórnarinnar sem var kynnt hér í morgun — áframhaldandi ál og áframhaldandi ál — mun viðskiptahallinn náttúrlega enn vaxa. Einhver verður að borga þann viðskiptahalla. Ætli það verði nú ekki sjávarútvegurinn, fiskurinn, sem gerir það hvenær sem það síðan verður, hvenær sem hann fær tækifæri til að fá sína samkeppnisstöðu, en þá verður það hann því að ekki er það álið. Álið skilar sáralitlu nettó til þjóðarinnar. Það er fiskvinnslan, það er ferðaþjónustan, það er iðnaðurinn, það eru hátæknistörfin sem skila arðinum og þess vegna skulum við standa vörð um fiskvinnsluna og þessi tillaga til þingsályktunar miðar einmitt að því, frú forseti.