132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Fullvinnsla á fiski hérlendis.

212. mál
[16:37]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessum umræðum, hv. þm. Pétri Bjarnasyni og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir þeirra ágætu innlegg í þessa umræðu sem ég hef hér farið í gegnum varðandi tillögu til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að vert er að huga að mörgum atriðum í þessu sambandi. Einnig kom hv. þm. Pétur Bjarnason inn á það sama. Þessi tillaga miðar að þessu ákveðna atriði sem þarna er til meðferðar varðandi útflutning á óunnum fiski í gámum án þess að hann komi hér við á fiskmörkuðum eða í fiskvinnslum hvort sem þær eru íslenskar eða erlendar — það er ekkert mál fyrir erlendar fiskvinnslur að bjóða í fisk á mörkuðum hér ef þeir vilja það — þ.e. að þarna sé gætt sjálfsagðs jafnræðis. Við það að minni útgerðum fækkar sem hafa sett fisk á markað þá verða líka þessir fiskmarkaðir miklu stopulli, en þessar litlu fiskvinnslur hafa einmitt unnið þrekvirki í þróunarstarfi á sérunnum fiski á mörkuðum. Þetta er hátæknivinnsla. Þetta er vinnsla sem krefst oft fínustu tækni og við höfum hér á landi fyrirtæki sem hafa verið leiðandi í heiminum í að framleiða tækni til fiskvinnslu. Öll þessi vinna krefst bæði sérþekkingar og mikillar færni. Með því að gera þessum fiskvinnslum erfitt fyrir eða útiloka þær smám saman, eins og er að gerast nú, töpum við bæði þeirri atvinnu sem felst í hátækniiðnaðinum í kringum vinnslutæknina og líka hjá því fólki hefur öðlast mikla færni í að auka verðmæti fisksins.

Sú stefna að leyfa fiski að fara í gámum á erlenda markaði er náttúrlega mjög andstæð íslenskum hagsmunum, bæði hvað viðvíkur viðskiptahagsmunum og líka tækniþróun og verðmætasköpun. Svo er það það sem hv. þingmenn Pétur Bjarnason og Jóhann Ársælsson nefndu, þ.e. hið háa gengi og sú efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar að virða að vettugi þarfir þess grunnatvinnuvegar þjóðarinnar sem fiskvinnslan er.

Hv. þm. Pétur Bjarnason minnist einmitt á áliðnaðinn sem er aðaláhugamál að minnsta kosti Framsóknarflokksins í atvinnumálum, þessi öfgafulla trú á ál, og að þjóðhagslegur ábati sem skilar sér inni í þjóðarbúið af þeirri starfsemi er sáralítill, innan við 30% af heildarútflutningstekjum. Hitt eru bara veltufjármunir. Fiskvinnslan aftur á móti er að skila inn í þjóðarbúið kannski allt upp í 70%–80% af virðisaukanum. Í því samhengi er alveg ljóst að við stefnum í óhagkvæma átt. Einnig veitir okkur ekki af þessari þekkingu, þessari færni, þessari verðmætasköpun. Við verðum að halda í hana og efla hana til að treysta fjölbreytt atvinnulíf hér til framtíðar.

Ég trúi því, frú forseti, að þessi tillaga til þingsályktunar okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jóns Bjarnasonar, Þuríðar Backman og Ögmundar Jónassonar fái góða og hraða afgreiðslu í nefnd. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. sjávarútvegsnefndar til frekari meðferðar.