132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[17:00]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni um launaleyndina að það er atriði sem þarf að skoða vel. Það er mjög flókið hins vegar. Maður sér að launaleyndin getur valdið því og hefur sjálfsagt valdið því í einhverjum tilvikum að konur vita ekki hvað karlar sem vinna við hliðina á þeim hafa í laun. En á hinn bóginn eru einnig viðhorf ríkjandi sem segja að laun eigi að vera persónubundin, þ.e. menn eigi ekki að gefa upp laun sín og þarf að vera hægt að umbuna fólki fyrir að standa sig vel. Þá er stundum erfitt að opna launaleyndina. Þetta eru því geysilega flókin mál og mjög erfitt að greina hvað rétt er að gera í því. En ég tel eðlilegt að þessi umræða verði tekin og bæði Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafa verið að íhuga þessi mál og auðvitað hafa stjórnarflokkarnir verið að því líka.

Í þingsályktunartillögunni sem við fjöllum núna um er vilji til þess, ef hún verður samþykkt, að sett verði upp þverpólitísk nefnd fulltrúa allra flokka sem fari heildstætt yfir kynbundinn launamun og þá er launaleyndin að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum sem til skoðunar koma.