132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[17:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði fyrir þingsályktunartillögu sem tekur á talsvert miklu réttlætismáli, máli sem stjórnmálaflokkarnir hafa allir auðvitað hver með sínum hætti reynt að beita sér fyrir. Það vekur eflaust athygli þeirra sem skoða flutningsmannalista þingsályktunartillögunnar að þar eru þingmenn úr öllum flokkum nema Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég tel rétt að skýra það í nokkrum orðum við þessa umræðu.

Ástæðan fyrir því er sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem er náttúrlega sammála anda þessarar tillögu, hefur lagt fyrir þingið frumvarp til laga sem er á þskj. 45 sem gengur lengra en þessi tillaga til þingsályktunar. Á því frumvarpi eru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutningsmenn og því þótti okkur ekki eðlilegt að taka þátt í að flytja þessa tillögu með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, enda gengur þetta frumvarp okkar talsvert lengra, eins og ég sagði.

Við, sem erum þó seinþreytt til vandræða, erum nánast búin að missa þolinmæðina gagnvart þessu launamisrétti sem er til staðar í landinu sem er stjórnarskrárbrot, er brot á lögum og er brot á stefnu ríkisstjórnarinnar. Við höfum í sjálfu sér, og er kannski hægt að taka undir það með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, ekki neinar töfralausnir. En við teljum þó að við höfum fundið upp praktíska lausn sem við lýsum í frumvarpi því sem um ræðir og við höfum lagt fram, eins og ég sagði áðan. Sú hugmynd er úr smiðju Atla Gíslasonar, varaþingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hann hefur unnið að því og var fyrstur manna til að leggja það mál fram á vorþinginu 2004. Það frumvarp gerir ráð fyrir að Jafnréttisstofu verði veittar heimildir til að ganga úr skugga um það með rannsókn og gagnaöflun hvort réttindum og skyldum samkvæmt jafnréttislögunum sé fullnægt, svo sem varðandi launajafnrétti og sömuleiðis að tryggt sé að bannákvæðum IV. kafla jafnréttislaganna sé framfylgt.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að Jafnréttisstofa geti hafið rannsókn og gagnaöflun að eigin frumkvæði að mótteknum kvörtunum eða í kjölfar kæru til kærunefndar jafnréttismála. Við líkjum því eða leggjum að jöfnu þær heimildir sem er mælt fyrir í lögum um skatta, í samkeppnislögum og í lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar er um ákveðnar heimildir að ræða sem jafnast á við þær sem við erum að leggja til að Jafnréttisstofa fái hvað varðar þetta úrræði að kanna hvernig farið verði að lögum varðandi launajafnréttið. Við teljum þetta vera afar veigamikil rök fyrir því að Jafnréttisstofa fái sambærilegar heimildir til að tryggja konum þessi stjórnarskrárbundnu mannréttindi.

Ég þarf ekki að fara frekar yfir málefnalega þætti málsins. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rakti það ágætlega í máli sínu. Í greinargerð okkar greinum við frá sömu rannsókn og hv. þm. nefnir, þ.e. rannsókn Þorgerðar Einarsdóttur, lektors í kynjafræði við Háskóla Íslands, sem er afar athyglisverð og kemur inn á það sem kom fram í samskiptum hv. þingmanna Sivjar Friðleifsdóttur og Marðar Árnasonar hér áðan varðandi launaleyndina. Í rannsókn Þorgerðar Einarsdóttur kemur í ljós að kynbundinn launamunur á Íslandi er meiri á hinum almenna vinnumarkaði en á hinum opinbera. Það er í samræmi við þær launakannanir sem hafa verið gerðar á vegum Félagsvísindastofnunar, hún hefur gert kannanir fyrir Verslunarfélag Reykjavíkur sem hafa leitt þetta í ljós og sömuleiðis reyndar launakannanir Reykjavíkurborgar líka. Þessi mismunandi staða jafnlauna annars vegar á almenna markaðnum og hins vegar á hinum opinbera virðist helst skýrt með því að kjaraákvarðanir séu í meira mæli einstaklingsbundnar á almenna vinnumarkaðnum og það færist í vöxt eins og við vitum að gerðir séu samningar þar sem kveðið er á um launaleynd.

Það er algengara á opinbera vinnumarkaðnum að gerðir séu miðstýrðir kjarasamningar og starfsfólk á opinbera vinnumarkaðinum er bundið þeim kjarasamningum á annan hátt en starfsfólk á almennum vinnumarkaði þar sem eru faktískt ekki neinir samningar eða taxtar í sjálfu sér heldur einhvers konar launakönnun sem á að leiða í ljós þróunina í þessum málum. Það er mat okkar að þessar staðreyndir ásamt landlægri launaleynd geri það að verkum að sífellt erfiðara verður að fylgjast með launaþróun og launamisrétti. Og vissulega höfum við ótal vísbendingar um að kynbundið launamisrétti hafi beinlínis fundið sér nýjan farveg, bæði í þessum leyndarsamningum og sömuleiðis í aukagreiðslum eins og bílahlunnindum, óunninni yfirvinnu, dagpeningum og slíku og má lesa út úr launakönnun Reykjavíkurborgar frá árinu 2001 að það sé raunin.

Það virðist ekki vera að mikil ráð séu til að fylgjast með því hvernig körlum er hyglað með greiðslum af þessu tagi og upplýsingar um slíkar greiðslur eru afar takmarkaðar hjá kjararannsóknarnefndum. En það sem auðvitað er alvarlegast í þessu máli er að ekkert bendir til þess að launamunurinn fari minnkandi. Við höfum alþjóðlegar rannsóknir sem benda jafnvel til þess að kynbundinn launamunur sé að aukast og muni aukast á næstu árum. Í þeim rannsóknum er einmitt talað um þessa einstaklingslaunasamninga sem gera illt verra og lítur út fyrir að menn hafi dálítið gefist upp fyrir þeim því að mikil fjölgun er á slíkum samningum og slíkt er að verða viðtekin venja.

Það er að okkar mati ljóst að lagasetningar þær sem hér hafa farið í gegnum hið háa Alþingi hafa ekki dugað til að taka á þessum málum hingað til. Að hluta til tel ég það vera vegna þess að ríkisstjórnir hafa ekki sett þennan málaflokk í nægilegan forgang. Ekki hefur verið gripið til nægilegra róttækra aðgerða af hálfu stjórnvalda í þessum efnum.

Við teljum okkur vera með hugmyndir sem eru afar róttækar og teljum svo sannarlega þörf á því að Alþingi skoði þær í fullri alvöru og teljum alveg komið að þeim tímapunkti að grípa til svo róttækra aðgerða frekar en að setja málið í nefnd eins og hv. þingmenn sem standa að þingsályktunartillögunni sem hér er rædd hafa lagt til.

Eins og ég segi, róttækar aðgerðir hafa verið fyrirskrifaðar í fyrrnefndu frumvarpi. Við teljum þær vera vænlegar leiðir til að ná árangri í þessari þrotlausu baráttu.