132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[17:09]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kom hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að frumvarp þeirra gengi lengra eins og það var orðað. Ég vil sérstaklega draga það fram að kannski má frekar segja að það sé sértækara af því að það beinist alveg sérstaklega að launaleyndinni og síðan ákvæðum um jafnréttisfulltrúa og ákvæði um nefndir og ráð en tillagan til þingsályktunar sem hér liggur til grundvallar er víðtækari. Mér finnst því orðalagið að það gangi lengra kannski örlítið villandi.

Ég vil líka benda á að þrátt fyrir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé með frumvarp um þessi atriði, launaleyndina, jafnréttisfulltrúana og nefndir og ráð þá finnst mér það ekki útiloka það að geta verið með slíkt á öðru máli. Ég hefði því kosið að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði verið með á þessu máli líka og bendi á að Samfylkingin kaus að vera með á málinu, þessari þingsályktunartillögu, þrátt fyrir að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri séu með annað mál sem lýtur líka að launaleyndinni þannig að mér finnst ekki að eitt mál útiloki annað af því að ég veit að við erum öll að reyna að stefna að sama marki sem er að útrýma kynbundnum launamun.