132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[17:13]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þessa, það alveg rétt að þingmannamál eru almennt ekki mjög lífvænleg, má segja. Þau ná ekki öll í gegn og sofna mörg í nefnd og endurflytja þarf þau o.s.frv.

En það er hins vegar svo að eftir því sem fleiri flokkar eru á málunum þeim mun líklegra er að þau nái í gegn þannig að ég hefði kosið og ég leitaði eftir því að fá Vinstri hreyfinguna – grænt framboð með á þessa þingsályktunartillögu. Ef það hefði orðið hefðu allir flokkar verið með og það hefði aukið líkurnar eitthvað á því að málið næði í gegn þó að það sé erfitt að meta hve mikið.

Ég vil benda á í þessu sambandi að ég flutti á sínum tíma, á fyrsta kjörtímabili mínu á hv. Alþingi, sem 1. flutningsmaður ásamt þingmönnum úr öllum flokkum þingsályktunartillögu sambærilega við þá sem hér er varðandi uppsetningu. Þar voru á þingmenn úr öllum flokkum, skipa átti þverpólitíska nefnd í fimm ár sem átti að vinna að ákveðnu markmiði sem var að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Sú tillaga var samþykkt, sem var mjög ánægjuleg tilbreyting af því að þetta var þingmannamál, og nefndin starfaði í fimm ár. Ég var fyrsti formaður hennar á sínum tíma og það varð mjög góður árangur af því nefndarstarfi. Hlutur kvenna jókst t.d. um 10% á Alþingi en eftir að starf nefndarinnar hætti hefur heldur sigið á ógæfuhliðina. Það þarf svo rosalega mikla fræðslu og mikinn áróður til að reyna að auka hlut kvenna á þinginu. En það eru einstaka mál sem komast í gegn og líkurnar aukast ef allir flokkar eru með. En hv. þingmaður sagði að þau vildu hampa frumvarpi sínu og ég skil það svo sem líka, en vonandi berum við gæfu til að standa saman að álíka málum síðar.