132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kynbundinn launamunur.

224. mál
[17:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það hefur orðið árangur af tillögum sem farið hafa í gegn og verið samþykktar, samanber tillöguna um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Það kemur fyrir að þingmannatillögur fara í gegn og skila góðum árangri. Ég skal gefa þá yfirlýsingu hér að ég kem ekki til með að leggjast gegn því að þessi tillaga fari í gegnum þá þingnefnd sem um ræðir. Ég mun styðja það og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með oddi og egg. Við treystum sömuleiðis á stuðning hv. þingmanns við að okkar frumvarp komist alla leið. Ég held að á endanum keppum við að sameiginlegu markmiði og getum öll lagst á eitt með að vinna að því að kynbundnum launamun verði útrýmt.

Ég er orðin svo langeyg og óþolinmæði mín slík að ég hef ekki lengur þolinmæði gagnvart þessu, að það skuli ekki ganga betur en raun ber vitni. Ég held að við þurfum að bretta upp ermar, spýta í lófana og sjá til að á verði breytingar.