132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Þingsköp Alþingis.

225. mál
[17:17]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um þingsköp Alþingis. Í því er mælst til þess að þingmenn samþykki breytingu, viðauka við 49. gr. þingskapa, sem fjallar um fyrirspurnir til ráðherra. Gert er ráð fyrir að við þessa grein bætist ný málsgrein sem svo orðast, með leyfi forseta:

„Óski alþingismaður upplýsinga um rekstur eða stjórnsýslu Alþingis er honum heimilt að gera það með fyrirspurn til forseta. Um slíka fyrirspurn fer eins og fyrirspurn til ráðherra. Sé óskað munnlegs svars skal fyrirspurnin borin fram á sérstökum fyrir fram ákveðnum fundi.“

Greinargerð með frumvarpinu er ákaflega stutt og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að þingmenn geti fengið upplýsingar um rekstur og stjórnsýslu Alþingis með svipuðum hætti og um rekstur og stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt þingsköpum er nú aðeins hægt að bera slíkar fyrirspurnir fram í umræðum um störf þingsins eða með fyrirspurn til forsætisráðherra. Því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að forseti svari skriflegum og munnlegum fyrirspurnum á svipaðan hátt og ráðherrar. Eðlilegt þykir að munnleg fyrirspurn til forseta sé tekin fyrir á sérstökum fundi en síður í sama fyrirspurnatíma og handhafar framkvæmdarvaldsins sitja fyrir svörum þingmanna.“

Þarna segir að nú sé einungis hægt að bera fram fyrirspurn til forseta með þinglegum hætti, þ.e. úr ræðustól þingsins og þannig að birtist í þingtíðindum og komi opinberlega fram, annaðhvort með því að hefja umræður um störf þingsins eða þá að gera fyrirspurn til forsætisráðherra. Umræður um störf þingsins skylda forsetann ekki til að svara þeim fyrirspurnum sem þar eru bornar fram þótt forsetar séu yfirleitt liðugir að svara því sem þurfa þykir. Fyrirspurn til forsætisráðherra er á vissan hátt, að mér finnst, ekki við hæfi Alþingis. Fyrirspurnin fer þannig fram að forsætisráðherra er spurður um hvað forseti Alþingis hafi gert eða hver séu rök forseta Alþingis fyrir hinu og þessu, rétt eins og forsætisráðherra sé einhvers konar yfirmaður forseta Alþingis eða annist stjórnsýslu Alþingis, sem er auðvitað ekki samkvæmt landslögum og stjórnarskrá.

Því má við bæta að liðurinn Athugasemdir um störf þingsins, sem er náttúrlegur að vissu leyti í þessu efni, hefur eins og við vitum þróast á annan hátt. Hin eiginlegu störf þingsins komast ekki lengur að í þeim umræðum. Þess vegna er þetta frumvarp samið og komið inn á vettvang þingsins. Það er gert ráð fyrir því að notað sé fyrirspurnaformið, sem við þekkjum ákaflega vel, en hins vegar séu fyrirspurnir til forseta aðgreindar frá fyrirspurnum til ráðherra. Gert er ráð fyrir að þær fari fram á öðrum tíma og á sérstökum fundum sem til þess eru settir vegna þess að ekki er um sama mál að ræða og vegna þess að búast má við að bragurinn á slíkum fyrirspurnum til forseta verði annar en er á fyrirspurnum til ráðherra þar sem oft takast á löggjafarvald og framkvæmdarvald samkvæmt eðli máls.

Alþingi skal háð í heyranda hljóði. Svo hefur verið frá árinu 1845 en það þótti ekki fullkomlega sjálfsagt allan hringinn á þeim tíma. Í raun á hið sama við bæði fyrr og síðar um ákvarðanir sem teknar eru á vegum þingsins og snerta allan almenning, ákvarðanir um fjármál og um ýmsar framkvæmdir. Í raun fer fram talsverð stjórnsýsla á vegum þingsins. Hún varðar að sjálfsögðu rekstur þess og t.d. umsjón húseigna í vörslu þingsins. En einnig er um annars konar stjórnsýslu að ræða. Ég nefni Jónshús, sem er í eigu eða umsjón Alþingis. Þar er ekki einungis um venjulegan húsrekstur og viðhald að ræða heldur ákveðna úthlutun gæða á vegum þingsins. Sérstök nefnd sér um dvalarleyfi til fræðimanna og rannsakenda í Jónshúsi, þeirra sem eiga erindi við söfn og gagnaveitur í Kaupmannahöfn og nágrenni.

Að auki koma til kasta Alþingis ýmis tilfallandi verkefni. Þetta frumvarp á sér rót í einu af þeim og var sett fram eftir umræður um bókaútgáfu á vegum Alþingis, nefnilega um þingræðisregluna, samanber umræður sem fóru fram í haust. Ég bar fram fyrirspurn til forseta undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins. Ég hafði auðvitað áður haft samband við forseta um það og starfsmenn þingsins. Um það var gott samkomulag. Það fór þannig fram að ég skrifaði forseta bréf sem forseti las síðan upp úr sínum stóli. Ég kom svo og bað um orðið um störf þingsins á eftir og fékk það. Forseti tók svo þátt í þessari umræðu úr stól sínum.

Út af fyrir sig fór þetta allt ágætlega fram og ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur fyrir það. En það er ekki eðlilegur gangur í slíkri umræðu að forseti svari úr stólnum í því sem má telja efnislega umræðu um mál á hans vegum. Hvernig sem því verður fyrir komið þá geri ég að tillögu minni að gert verði ráð fyrir slíkum fyrirspurnalið í þingsköpum. Þetta mundi ekki aðeins hjálpa til við skipulagningu þingstarfa heldur líka tryggja gagnsæi við ákvarðanir á vegum þingsins. Forseti Alþingis er valdamikill maður, óvenjulega valdamikill í íslenska stjórnkerfinu. Um slíka menn eiga vitanlega að gilda sérstakar reglur um fullt gagnsæi í stjórnsýslu þeirra, um að upplýsingar séu veittar þeim sem hafa vilja og eiga heimtingu á eins og fara gerir. Vissulega hefur forseti um sig nefnd, forsætisnefnd, en sú nefnd er mjög sérstök á þinginu. Þar ræður ekki afl atkvæða heldur er hún í raun samráðsnefnd, þó þannig að ekki eiga allir þingflokkar aðild að henni og auðvitað ekki allir þingmenn.

Á þinginu háttar nú svo til að einn flokkur, Frjálslyndi flokkurinn, á ekki aðild að forsætisnefnd. Mér er ekki kunnugt um sérstakar samráðsskyldur forsætisnefndar eða forseta við þann flokk um það sem fram fer í forsætisnefnd. Forsætisnefndin dugir ekki til að tryggja gagnsæið og þessar upplýsingar enda ekki um þær að ræða nema fyrir þingmenn. Almenningur kemst ekki að því sem forsætisnefndarmenn kunna að segja öðrum þingmönnum frá á þingflokksfundum eða í persónulegum samtölum.

Ég vona að þessi tillaga fái byr í óformlegri endurskoðun þingskapa sem nú fer fram undir forustu forseta Alþingis. Ég vonast til að þar verði hún tekin upp. Allt hefur þetta þinglegan gang og þessi endurskoðun var ekki hafin þegar ég lagði fram frumvarpið. Ég óska þess að að lokinni 1. umr. verði þetta frumvarp sent allsherjarnefnd til umræðu og afgreiðslu.