132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Þingsköp Alþingis.

225. mál
[17:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. En hv. þm. Mörður Árnason flytur þá tillögu um breytingar á lögunum að alþingismanni sé heimilt að óska upplýsinga um rekstur eða stjórnsýslu Alþingis og að hann geti gert það með fyrirspurn til forseta þingsins. Líkt verði háttað með þá fyrirspurn og fyrirspurn til ráðherra. Forseti svari. Sé óskað munnlegs svars skuli fyrirspurnin borin fram á sérstökum fyrir fram ákveðnum fundi.

Ég vil lýsa stuðningi við þá hugsun sem kemur fram í þessu frumvarpi og reyndar finnst mér alveg koma til greina að þessi breyting á þingskapalögunum nái fram að ganga. En það er eitt atriði sem mig langar að viðra í sambandi við þetta. Það er hvort hægt er að útvíkka þetta enn meira. Ég gerði það að umræðuefni þegar skýrslur umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar voru til umfjöllunar hér síðast að við byggjum við alls óviðunandi fyrirkomulag við þá umræðu. Reyndar væru þær stofnanir sem þessir aðilar rannsökuðu eða fjölluðu um einnig oft og tíðum settar upp við vegg eða fengju aldrei tækifæri til að svara fyrir sig á vettvangi Alþingis. Ég var með tillögu um að þetta yrði gert í nefndum þingsins sem þá væru opnar. Fyrir þær nefndir kæmu umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðandi og hugsanlega einnig fulltrúar þeirra stofnana sem skeytum væri beint að í skýrslum umboðsmanns eða Ríkisendurskoðunar þannig að fram færi á vettvangi þingsins umræða um þessa skýrslu. Þetta er þannig að forseti þingsins svarar fyrir hönd þessara aðila hér í þingsal. Fulltrúar þessara stofnana sitja eins og illa gerðir hlutir hér í hliðarherbergjum og fá engum andmælum komið við. Ég held að þarna þurfi að finna fyrirkomulag sem leiðir til markvissari umræðu en það form sem við búum við núna. Ég vil bara vekja máls á þessu í sambandi við þessa tillögu sem mér finnst vera góðra gjalda verð og nauðsynlegt í rauninni að skapaður sé vettvangur fyrir málefni sem snerta þingið og stjórnsýslu í þessari stofnun þar sem þingmenn geti borið fram fyrirspurnir. En ég velti fyrir mér hvort þarna væri hugmynd sem hægt væri að víkka út eitthvað enn frekar. Svo má ekki gleyma því að við erum með fyrirkomulag hér innan dyra sem gerir okkur kleift að ræða stjórnsýslu í þinginu. Við erum með forsætisnefnd þingsins. Við erum með reglulegt fundarhald þingflokksformanna. En að auki mætti vera fyrirkomulag á borð við það sem hér er lagt til.

Annað sem kveikti í mér að koma hér upp við umræðuna voru hugmyndir sem hv. þm. Kjartan Ólafsson viðraði hér um hugsanlegar frekari breytingar á þingskapalögum. Þótti honum ranglátt að lítill þingflokkur hér á þinginu hefði sama rétt í t.d. utandagskrárumræðum og fjölmennir flokkar. Ég skil alveg þessa hugsun. Ég skil alveg að þetta hreyfi við réttlætiskennd þingmannsins, sérstaklega þingmanna úr stórum flokkum. En á hitt er að líta, og ég vil einnig halda því sjónarmiði á lofti, að í fyrsta lagi ber að horfa til réttinda einstakra þingmanna, eins og hv. þm. Mörður Árnason kom að í sínu tali. Síðan er einnig á hitt að líta að þingflokkar eru fulltrúar mismunandi sjónarmiða, alla vega í mörgum málum. Nú var umræða hér dag t.d. um stóriðjuframkvæmdir og álið. Þá er það þannig, það er bara staðreynd, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem óskiptur er mjög eindreginn talsmaður ákveðinna sjónarmiða í því máli án þess að ég ætli að fara nánar út í þá sálma. Þetta er bara staðreynd. Ef við takmörkuðum umræðu og tengdum hana stærð stjórnmálaflokka þá hefði það ekki aðeins gerst í þessu máli heldur ýmsum öðrum átakamálum í þinginu að við drægjum úr vægi gagnrýnenda tiltekinna sjónarmiða í þinginu við utandagskrárumræður og við aðrar umræður. Það er nokkuð sem ég held að við þurfum líka að hafa í huga þegar við horfum til þingflokkanna og þess réttar sem þeir njóta í þingskapalögunum.

En hæstv. forseti. Það er verið að endurskoða þingskapalögin. Sú vinna er hafin með skipulegri yfirferð yfir lögin þar sem þingflokkarnir hafa komið á framfæri sínum sjónarmiðum. Ég fyrir mitt leyti mun vilja horfa á þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Merði Árnasyni og ég styð hugsunina sem hún hvílir á. En velti fyrir mér hvort hugsanlega sé hægt að framkvæma hana í öðru formi. Það er nokkuð sem bíður frekari skoðunar.