132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[18:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð til stuðnings þessu frumvarpi og þarf nú sá stuðningur ekki að koma frá mér því að ég er einn af flutningsmönnum þess, en þó vil ég segja nokkur orð til ítrekunar á því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði.

Í tilefni af umræðu hér í andsvörum verðum við í byrjun að gera okkur grein fyrir því að við erum hér ekki að ræða hverja aðra vöru sem framleiðendur hennar hafa rétt til þess að keppa með á markaði og markaðsfæra með þeim hætti sem við teljum innan ramma siðgæðis og annarra reglna við hæfi á okkar landi og í okkar heimshluta heldur erum við hér að ræða um áfengi, um vímugjafa sem getur ekki fallið undir skilgreiningar á venjulegri vöru. Þess vegna höfum við þessi sérstöku áfengislög og annan umbúnað laga, reglna og stofnana um neyslu hans og ýmislegt sem af þeirri neyslu hlýst. Venjuleg umræða um boð og bönn á því ekki við í þessu efni.

Hitt er rétt hjá hv. þm. Jóni Óskarssyni að það er alltaf neyðarúrræði að beita boðum og bönnum. Það þarf að ræða í hvert skipti og það þarf að vera á hreinu, vera alveg klárt, af hverju menn beita bönnum eða hafa sérstök boð um ákveðna vöru, í þessu tilviki um áfengi, og af hverju menn hafa búið þennan ramma í kringum hana. Einnig þarf að ræða hreinskilnislega af hverju menn hafa t.d. bannað önnur vímuefni sem sum eru eða eru a.m.k. sögð vægari en áfengi og leiða til minni skaða fyrir þann sem þeirra neytir og það samfélag sem neyslan fer fram í. Mætti hér reyndar halda nokkuð langa ræðu um tvískinnung og það sem kallað er á misjafnri íslensku „dobbeltmóral“ í þessum efnum.

Ég held líka að það sé gott að líta í hverjum hlut á sögu hans og þá er auðvitað um það að ræða, eins og hv. þm. Jón Óskarsson og miklu fleiri hafa bent á, að samfélag okkar hefur þróast mjög á undanförnum áratugum. Við erum komin í miklu meira samhengi við grannþjóðir. Við höfum við þær samskipti sem nú taka sekúndur en einu sinni þurfti að bíða í heil ár eftir fréttum og svörum frá útlöndum. Þetta hefur torveldað okkur að halda uppi hér einhverri sérvisku í neysluháttum eða umbúnaði um markað. Á hitt er að líta sem hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á að við erum ekki eina þjóðin sem stendur í þessum vanda. Ýmsar þjóðir hafa svipaðar reglur og við um bann við áfengisauglýsingum. Ég hygg að a.m.k. í Evrópu sé það hin almenna þróun og þá erum við líka að tala um fornfræg vín- og drykkjulönd t.d. í Suður-Evrópu. Í Evrópu er það hin almenna þróun að menn eru að reyna að hefta auglýsingar, reyna að stjórna markaðsfærslu áfengis þar sem hún er landlæg. Ég minni á Frakkland í því skyni. En eftir breytingar sem gerðar voru í Frakklandi í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar er ástandið þar í raun miklu siðlegra í áfengisauglýsingamálum en það er hér. Svo geta menn auðvitað svarað með því: Af hverju tökum við þá ekki upp hinar frönsku reglur? Ég svara þá á móti með því að sinn er siður í landi hverju. Reglur um þessi efni verða að mótast mjög af þeirri hefð og því ástandi sem er í hverju landi. Hér mætti svo halda áfram að tala um léttvínsdrykkju Íslendinga og ákveðna ágæta þróun í þeim málum.

Saga, sagði ég. Ég held að upphaf þessa máls sé með þeim hætti að þegar bjór var leyfður hér í landinu, sem er stutt síðan og ég tel hafa verið jákvæða athöfn í sjálfu sér, þá kvörtuðu íslenskir framleiðendur pilsners og bjórs sem seldur var í Fríhöfn og á öðrum slíkum stöðum yfir því að erlendir framleiðendur og seljendur hefðu mikið forskot á markaði og það væri eðlilegt að einhvern veginn væri þetta forskot heft eða innlendum bjórframleiðendum væri einhvern veginn gert kleift að vinna á þessu forskoti. Það hygg ég að hafi verið upphafið að þessu máli að þeim var sem sé í raun auðveldað að auglýsa sitt vörumerki og séð í gengum fingur við þá um að það vörumerki tæki nú einnig til áfengs bjórs en ekki eingöngu þeirrar vöru sem þeir framleiddu áður, sem var malt eða pilsner eða eitthvað af því tagi. Síðan hygg ég að þessi aðgreining erlendra og innlendra framleiðenda hafi horfið hér í einhverjum lagabreytingum, sjálfsagt í kringum lögleiðingu hins Evrópska efnahagssvæðis. Eftir stendur þetta litla gat sem nú er mjög hamast í og hefur orðið til þess að áfengisauglýsingar vaða hér uppi, bæði þær sem hugsanlega væri hægt að réttlæta með þessum setningum um að heimilt sé að nota firmanafn eða -merki í tengslum við auglýsingu óáfengra drykkja og hreinlega áfengisauglýsinga sem eru algjörlega ólöglegar og ekki er hægt að heimfæra undir þetta ákvæði áfengislaga með nokkrum hætti en koma auðvitað í kjölfar þessara auglýsinga á svokölluðum léttbjór eða 0% bjór.

Ég tek undir það með flutningsmanni að sjálfsagt er að ræða þessa hluti og fara yfir það hvort ástæða er til þess að breyta þessum lögum og leyfa einhvers konar auglýsingar á áfengi. Hins vegar er löggjafanum sjálfsagt að loka þessu gati áður en hann hefur slíkar umræður og sjá til þess að farið sé að lögum í landinu þannig að ef það er niðurstaða meiri hluta Alþingis að leyfa áfengisauglýsingar með einhverjum hætti þá sé sú ákvörðun tekin sjálfstætt á grunni raka og á grunni þeirra sjónarmiða sem hér koma fram og þeirra sjónarmiða sem á ferð eru í samfélaginu en séu ekki niðurstaða af löglausu athæfi sem Alþingi nánast er eins og að viðurkenna eða gefast upp fyrir. Það er ekki þannig sem löggjafinn á að haga sér og það eru kröfur á löggjafann frá almenningi í landinu að hann standi sig að þessu leyti.

Ég verð svo að segja að ég hef hugleitt að sjálfsögðu eins og aðrir þetta með auglýsingar á áfengi hérlendis. Ég hef líka skoðað frumvarp sem ég hygg að sé búið að ræða hér í 1. umr. Ég gat ekki verið við þá umræðu að vísu og biðst afsökunar á því. Ég var upptekinn í þinglegum erindum eða a.m.k. pólitískum erindum sem þingmaður annars staðar. En ég verð að segja að mér þykir það frumvarp ekki fara góða leið. Þar er í raun og veru í grunninn farin sú leið, eins og í öðru frumvarpi um að selja ákveðnar áfengistegundir utan Áfengis- og tóbaksverslunarinnar, að skipta áfengi í tvennt og búa til áfengi sem er vont áfengi, sem er áfengi yfir 22% í alkóhólmælingu, en á hinn bóginn er sagt að annað áfengi sé gott og það er þá áfengi sem er undir 22% í áfengismælingum. Nú er ég ekki bindindismaður á áfengi og mér finnst enginn slíkur munur vera á að það séu einhver sérstök veðrabrigði um þessi 22% og skil ekki alveg þá speki. Ég tel heldur ekki að það sé neitt skárra að gefa barni bjór eða léttvín að drekka en að hella í það brennivíni. Mér finnst hvorugt við hæfi og í sjálfu sér enginn munur á því. Ég held að það sé hættulegt að búa til þennan mun, að löggjafinn sé að búa þennan mun. Ég veit vissulega að fyrir þessu eru fordæmi en ég tel að þau eigi ekki við okkar menningu og okkar hefð.

Það vill til að ég var ritstjóri dagblaðs á Íslandi. Það hét Þjóðviljinn og var merkilegt dagblað sem hefur því miður fyrir nokkru sett upp tærnar. Ég skrifaði leiðara á bjórdaginn sjálfan þar sem ég fagnaði þessum tímamótum fyrir hönd blaðsins. Ég taldi vera tíma til kominn að láta af þessum sérkennilegheitum sem stöfuðu af sögulegri tilviljun á Íslandi. Fyrirsögn leiðarans var tekin eftir þeim boðskap sem mjög var uppi hafður um þetta leyti af hálfu stjórnskipaðra yfirvalda til áfengisvarna og var einmitt á þá leið að bjór væri áfengi. Bjór er áfengi, hét þessi leiðari og var samhljóða auglýsingum sem víða birtust á þessum tíma og áttu að stuðla að því að Íslendingar teldu ekki að hér væri um eitthvað annað en brennivín að ræða, brennivín í hinum alþýðlega skilningi þess orð, þ.e. drykkur sem veldur vímu, til þess að menn tækju ekki upp á því sem óttast var og hefur nú sem betur fer ekki orðið, að verða daglegir neytendur bjórs með einhverjum öðrum hætti en annars áfengis, eða að bjór yrði eins og í sumum grannlöndum okkar drukkinn í hádeginu og í vinnunni, að hann teldist sjálfsagður í öllu félagslegu samneyti og að menn teldu ekki að einhver munur væri á áfengismagni í blóði við akstur eftir því hvort það kæmi inn með bjórdrykkju eða drykkju annars áfengis. Ég held að þetta sé nú bara enn þá kjarni málsins um það bil 20 árum síðar að bjór sé áfengi. Og eins og léttvínin geta runnið ljúft um munn og í maga þá eru þau það líka og til þeirra sérkenna þessarar vöru verðum við að taka fullt tillit þegar við mörkum henni lagaramma og hugum að markaðssetningu hennar hér á landi enda beinist hún í þessu tilviki sem við erum hér að tala um, í hinum ólöglegu áfengisauglýsingum, aðallega að unglingum og ungmennum, þeim hópi sem telst vera auðhreyfanlegastur í auglýsingaspekinni og þeim hópi sem hættast er við að fari sér að voða með þessa hluti.