132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys.

238. mál
[18:24]
Hlusta

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þessa þingsályktunartillögu þó að það væri hægt en hún hefur verið flutt nokkuð reglulega alveg frá 125. löggjafarþingi eða frá árinu 1999–2000 á þingskjali sem þá var númer 605, 352. mál. Síðan hefur þingsályktunartillagan komið hér fram nokkuð reglulega og verið uppfærð og sett á hana tíðni slysa. Sem betur fer hafa banaslys ekki orðið á tímabilinu, þ.e. frá 1994 fram til dagsins í dag, vegna árekstra við skepnur sem hafa verið á þjóðvegunum en það hafa margir slasast illa, enn fleiri slasast lítið en óhöppin eru mjög mörg og mjög kostnaðarsöm. Vegagerðin heldur yfirlit og skýrslu yfir slys af völdum búfénaðar sem er á þjóðvegunum og eins er hægt að finna upplýsingar hjá vátryggingafélögunum og hjá heilbrigðisstofnunum.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að við nýframkvæmdir samkvæmt vegáætlun verði gert ráð fyrir rásum fyrir búfénað undir vegi þar sem girt er meðfram vegum en bithagar beggja vegna. Jafnframt verði hafin vinna við gerð slíkra rása undir vegi þar sem umferð er þung og bithagar eru nytjaðir beggja vegna vegar.“

Hæstv. forseti. Sífellt er meiri þungi og krafa um að búfénaður sé ekki á þjóðvegum landsins. Þetta á sérstaklega við um sauðfé og svo kýr, sem ganga nú ekki um vegi öðruvísi en verið sé að reka þær yfir vegina til mjalta eða í bithaga. Hross hafa einnig verið á vegum og eru það yfirleitt mjög alvarleg slys þegar keyrt er á hross.

Núna eru háværar kröfur um að girt sé meðfram öllum þjóðvegum landsins til að forða því að búpeningur sé á þjóðvegunum. Til að sveitarfélögin geti bannað lausagöngu búfjár þarf að girða meðfram þjóðvegunum en ef það er gert eru bændur ábyrgir fyrir því tjóni sem verður ef skepnur frá þeim eru á þjóðvegunum. Þarna þarf að bæta um betur og koma því alveg á hreint hvernig eigi að standa að því að girða meðfram þjóðvegunum, en víða er það svo að bændur hafa verið ófúsir til að láta girða meðfram vegi þar sem þeir þurfa á því að halda að sauðfé geti farið á milli hólfa. Þá er í rauninni eina leiðin að koma upp rásum undir þjóðvegi en ekki hefur náðst samkomulag um að fjármagn verið veitt til þess að setja þau ræsi eins og hefur þurft.

Það sem snýr að kúabændum er að koma þarf upp ræsum á miklu fleiri stöðum til að þeir geti rekið kýrnar í tengslum við mjaltir undir þjóðveginn í fyrrnefndum rásum í stað þess að þurfa að reka þær yfir þjóðveginn með þeirri slysahættu sem af því stafar.

Hæstv. forseti. Í rauninni væri hægt að hafa um þetta mörg orð en ég held að miklu mikilvægara sé að vísa þingsályktunartillögunni til samgöngunefndar og fá um hana umsagnir og umræðu í hv. samgöngunefnd þar sem vegáætlun og samgönguáætlun eiga að vera núna til afgreiðslu á þessu þingi. Í þeim áætlunum þarf að forgangsraða og þetta er m.a. hluti af því að forgangsraða fjármagni til framkvæmda, þ.e. að ætla þessum öryggisþætti meira fjármagn og setja upp markvissari áætlun um hvernig eigi að standa að kortlagningu og meta þörfina og eins til þess að meta hvað þetta muni kosta og setja það síðan í tímaáætlun.