132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[10:57]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afskaplega þörfu máli sem hefur brunnið á landsmönnum um alllanga hríð. Ég lít svo á að núna sé nokkurn veginn liðinn sá tilraunatími sem verið hefur undanfarin ár. Strandsiglingar lögðust af fyrir nokkrum árum. Reyndar var gerð mjög athyglisverð og góð tilraun þar sem flutningaskipið Jaxlinn ferðaðist á milli hafna og leysti margan vanda á þeim tíma sem það starfaði en því miður lagðist sú starfsemi af og væntanlega mun hún ekki fara af stað aftur. Ég hef ekki haft spurnir af því en hef þó verið að reyna að fá upplýsingar um það.

Farið var yfir ýmis rök með þessu í greinargerð og í ræðu hv. flutningsmanns en hver einasti maður sem ferðast um þjóðvegi landsins hlýtur að verða var við þessa dreka, stóru flutningabílana sem ferðast þar um. Þeir keyra yfirleitt frekar hratt hvort heldur vegirnir eru greiðir og tvíbreiðir eða mjóir og þröngir. Sum af þeim rökum voru þau að vegakerfið væri að batna, búið væri að leggja bundið slitlag og vegirnir þyldu betur þessa miklu umferð en áður. Þetta er ekki rétt vegna þess að bundið slitlag er ekki miðað við umferð og þungaflutninga af þessu tagi fyrir utan það að ákveðin landsvæði, sem ég þekki mjög vel til, eru alls ekki komin með bundið slitlag heldur eru með gömlu vegina. Ég fyrir mitt leyti er búinn að keyra sömu vegarspottana vestur á firði sunnanverða frá því að ég fékk bílprófið 17 ára gamall og það eru orðin þó nokkuð mörg ár síðan. Vegakerfið ber þetta ekki á nokkurn hátt. Og það má alveg sjá það þar sem umferð hefur verið mikil af þessum þungaflutningum hvernig vegirnir spænast upp og verða nánast ófærir venjulegum ökutækjum fyrir utan þá hættu sem hlýst af því að mæta þeim og reyna að komast fram úr þeim sem er einn hluti af þessu.

Það er athyglisvert að Morgunblaðið, blað allra landsmanna, fjallar um þetta fyrir tæpum tveimur árum, og er þá að svara hv. þm. Ögmundi Jónassyni, og veltir upp spurningunni: „Sitja ekki allir við sama borð?“ Og það er svona heldur að skilja á ritstjórnargreininni að það vanti mikið á það.

Með leyfi hæstv. forseta, les ég hér upp úr greininni sem er fylgiskjal II með tillögunni:

„Vegakerfið hefur smátt og smátt verið að batna. Það er betra vegakerfi með varanlegu slitlagi, sem hefur orðið til þess að flutningar hafa færst af sjó yfir á land.“ — Ég gat reyndar um það áðan að þetta er alhæfing sem ég tek ekki undir. — „Er hugsanlegt að hið opinbera mismuni flutningafyrirtækjum á einhvern hátt eftir því, hvort flutningar fara fram með skipum eða flutningabílum? Er hugsanlegt að opinber gjaldtaka geri það að verkum að landflutningar verði hagkvæmari? Er hugsanlegt að landflutningafyrirtækin eigi að greiða meira en þau gera fyrir notkun á vegum?

Þessum spurningum þurfa stjórnvöld að svara í þeim umræðum, sem nú standa yfir um flutningamál“ — segir Morgunblaðið fyrir tveimur árum.

Ég held að stjórnvöld hafi ekki svarað þessu og það er greinilegt að þau hafa ekki brugðist við þessu eins og þörf er á og þyrfti að gera, því að enn eru þessir flutningabílar á ferðinni á vegum sem ekki þola umferðina. Enn verða tafir á flutningum. Það má ekki gleyma því að vegna þessa álags á vegina verður Vegagerðin oft og tíðum að beita þungatakmörkunum. Það þýðir einfaldlega að fara þarf með flutninga aðra leið en þeim er ætlað eða að hluta þarf þá í miklu smærri einingar. Það er dýrara og hver borgar brúsann? Óhjákvæmilega er það neytandinn sem borgar brúsann. Það er alltaf þannig.

Ég held að skilgreina þurfi hvers konar flutninga eigi að flytja á vegunum, hvers konar flutninga er heppilegt að flytja í lofti og hvaða flutningar þurfi að fara á sjó. Ég vil nefna dæmi, þar sem það fer í vöxt að flytja hús milli landshluta, af smið vestur á fjörðum sem smíðar sumarhús. Ef flytja þarf slíkt hús á vegum landsins þarf hann vernd, hann þarf sérstakar aðstæður, sérstakan flutningabíl og það er undir hælinn lagt að bíllinn komist þá vegi sem þarf að flytja það vegna þungatakmarkana á þeim tíma. Hann þarf sérstaka lögreglufylgd og hann þarf að greiða fyrir þetta allt saman. En hins vegar meðan Jaxlinn var í förum kom hann húsinu niður á bryggju og það fór þar um borð og þurfti enga sérstaka vernd í flutningi, það var bara tekið upp í höfninni.

Sama má t.d. segja um báta sem fluttir eru milli staða. Það er mikið fyrirtæki að koma þeim á bíla en þeir voru um mjög langa tíð fluttir á skipunum. Þannig mætti lengi telja en eftir stendur að vegakerfið er engan veginn tilbúið til að taka við þessum flutningum og þótt það væri tilbúið má spyrja hvort það sé í rauninni eðlilegt að eyríki eins og Ísland hafni algjörlega sjóflutningum í kringum eyjuna. Það er mjög sérkennileg staða og mjög óeðlileg staða. Ég held að þessi þingsályktunartillaga um strandsiglingar sé þess virði að hún sé virkilega vel skoðuð af stjórnvöldum og ég vænti þess að hún fái góða umfjöllun og afgreiðslu í nefnd.