132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni til upplýsingar um hugmyndir sem ég hef reifað áður í því samhengi hvaða leið eigi að fara til að tryggja strandsiglingar. Í Morgunblaðsgrein sem ég skrifaði í ágúst 2004, segir m.a., með leyfi forseta:

„Íslendingar hafa varið miklum fjármunum í hafnargerð víðs vegar um landið, bæði fyrir fiskiskipaflotann og einnig flutningaskip. Margt bendir til þess að sjóflutningar séu hagkvæmur kostur í þjóðhagslegu tilliti. Gæti verið ráð að samfélagið tæki höndum saman um að koma á strandsiglingum að nýju? Fyrirtækið gæti t.d. heitið Skipaútgerð ríkisins. Nafnið skiptir ekki öllu máli. Hitt skiptir máli að við förum í alvöru að hugleiða hvort við eigum annarra kosta völ en að byrja upp á nýtt og hefja uppbyggingarstarf á þeim sviðum þar sem ríkisstjórnir síðasta hálfan annan áratuginn hafa gengið harðast fram í einkavæðingu.“

Þetta er sjónarmið sem ég stend við enn í dag. En ég er tilbúinn að fara aðrar leiðir og skoða útboðsleið. Ég er hvorki með né á móti útboðum sem slíkum. Þau geta verið ágæt og réttlætanleg í mörgu tilviki. Í öðrum tilvikum tel ég þau vera röng. Núna verðum við að horfast í augu við miðstýringaráráttu Evrópusambandsins sem setur okkur þröngar skorður í þessu efni sem ýmsum öðrum. Það er bannað samkvæmt heilagri ritningu Evrópusambandsins að fara þá leið sem ég tel vera vænlegasta í þessum málum. Þá horfum við af raunsæi á málin og horfum til þess sem líklegt er að nái fram að ganga með þverpólitískri samstöðu hér á þinginu.

Ég fagna hins vegar almennt ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ræða hans var jákvæð og ég tek undir alla meginþætti í málflutningi hans.