132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:42]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ágætar umræður um það mál sem hér er sem er um strandsiglingar. Tillaga þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins er um að gengið verði í það að koma á siglingum meðfram ströndum landsins, skipulegu flutningakerfi. Þó svo að menn hafi farið á víð og dreif í umræðunni hafa allir þingmenn sem tekið hafa til máls stutt málið mjög afdráttarlaust. Reyndar gerðist það sama hér fyrr. Fyrst fluttum þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þessa tillögu um strandsiglingar. Þetta er í þriðja skipti sem tillagan er flutt. Þá fór hún til samgöngunefndar og umsagnar. Þær umsagnir sem komu gengu nánast allar út á það að taka bæri upp strandsiglingar og bent var m.a. á þá útboðsleið sem hér er lögð til að megi kanna.

Einnig hefur verið rækilega bent á hinn gríðarlega háa flutningskostnað sem er á vörum út um land og þá fákeppni og nánast einokun sem orðin er í flutningum á landinu. Það eru orðin tvö fyrirtæki sem ráða nánast öllum flutningum í landinu og skammta sér verð.

Þessi tillaga um strandsiglingar hefur fengið mjög góðar undirtektir. Ég er hér með grein úr Morgunblaðinu frá því sunnudaginn 5. febrúar 2006. Þar er mjög ítarleg umfjöllun um þessa miklu flutninga á vegunum og þar segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: „Eiga risarnir vegina?“

Síðan segir:

„Vörubifreiðum á þjóðvegum landsins hefur fjölgað mikið síðustu ár og margir hafa velt vöngum yfir því hvaða áhrif þetta hafi á umferðaröryggi. Einn viðmælenda Morgunblaðsins líkti ástandinu á þjóðvegunum raunar við rússneska rúllettu.“

Þetta er lýsing á því hversu miklu hættuástandi þessir stóru flutningabílar valda á þjóðvegum landsins.

Við höfum lagt hér saman hagkvæmni í flutningum. Við höfum talað um umhverfismál og að sjóflutningar draga úr losun koltvísýrings í andrúmslofti miðað við landflutninga. Þetta er umferðaröryggismál og þetta er líka mál sem snertir jöfnun í samkeppni staða hvar sem er á landinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég þakka fyrir góðan stuðning við tillöguna og vona að hún verði, að umræðu lokinni, send til hv. samgöngunefndar. (ÖS: Hver er afstaða Framsóknarflokksins? Á hún ekki að koma fram?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veltir fyrir sér skoðun Framsóknarflokksins. Ég held að hann sé ekki einn um það.