132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[11:59]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá er hér stendur er einn af þeim sem fögnuðu þegar þetta frumvarp var lagt fram síðasta haust. En við nánari skoðun kom í ljós að það má kalla það nánast óklárað eða illa unnið. Í kjölfarið bárust margar gagnlegar og nauðsynlegar ábendingar frá hagsmunasamtökum sem daglega vinna að málefnum langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Þær góðu ábendingar koma því miður ekki fram í breytingartillögum meiri hluta sjálfstæðis- og framsóknarmanna í félagsmálanefnd og ég verð að viðurkenna að það urðu mér sár vonbrigði. Þær ábendingar munu koma fram í breytingartillögum minni hlutans.

Ég velti því fyrir mér og spyr hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, formann félagsmálanefndar: Kom ekki til greina hjá hv. þingmönnum meiri hlutans í félagsmálanefnd að bæta frumvarpið t.d. með breytingartillögum í anda ábendinga frá hagsmunasamtökum, Þroskahjálp, Umhyggju eða svæðisskrifstofum málefna fatlaðra?