132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hversu langt eða víðtækt ákvæðið er um að greiða dvalarkostnað. Ég hygg að það sé alla vega innan lands, ég veit ekki hvernig það er erlendis en tel að Tryggingastofnun sé yfirleitt mjög lipur með það. (Gripið fram í.) Ég ætla því ekki að ræða það frekar.

Þegar tekin var upp örorka samkvæmt læknisfræðilegu mati átti það að vera björg alls og átti að lækka mikið örorkubyrðina. Svo var hv. þingheimi sagt af sérfræðingum Tryggingastofnunar. Það reyndist þveröfugt, allar gáttir opnuðust og í dag eru 800 manns t.d. á endurhæfingarlífeyri. Ég hef spurt að því: Hvaða endurhæfing er í boði? Ég fæ ósköp lítil svör við því. Það eru bara 800 manns sem eru á endurhæfingarlífeyri.

Þannig er þetta mjög víða. Það skiptir verulegu máli að þeir læknar sem meta sjúkdóma langveikra barna gæti sín á því að víkka ekki út það svið vegna þess að þeir vilji fólkinu vel. Ég spái því að fjöldi þeirra sem teljast langveikir muni aukast af fenginni reynslu. Það er náttúrlega ekki nákvæmlega það sem lagasetningin gengur út á.