132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal áðan. Hann notaði töluverðan tíma af ræðu sinni til að verja Framsóknarflokkinn. Hv. þingmaður notaði tækifærið til þess að verja Framsóknarflokkinn vegna þess að hér höfðu komið fram ásakanir fyrr í dag um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði beygt Framsóknarflokkinn í málinu. Ég held einmitt að ræður hv. þingmanns hafi fært okkur heim sanninn um að hann kom hingað með svolitla sektarkennd vegna þess að hann vissi upp á sig sökina. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í félagsmálum í þessari umræðu a.m.k., veit auðvitað manna best að Framsóknarflokkurinn vildi ganga lengra en að Sjálfstæðisflokkurinn með það sérkennilega hugarfar sem oft birtist í ræðum hv. þingmanns réði förinni í þessu efni.

Mér fannst líka athyglisvert að hlusta á andsvör hv. þingmanns gagnvart hv. þm. Valdimar Leó Friðrikssyni áðan. Ég gat ekki varist því, eins og hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson, að draga þá ályktun að hv. þm. Pétur H. Blöndal teldi að bætur framleiddu fólk sem þyrfti á þeim að halda, þ.e. að almannabótakerfið og almannatryggingakerfið væri vel til þess fallið að framleiða öryrkja, framleiða fólk sem á undir högg að sækja og þarf á bótum að halda. Ég sé að hv. þingmaður hneigir höfuð til samþykkis við þeirri staðhæfingu minni þannig að ég tek það svo að hann sé því sammála. Það sem birtist í þeim orðum hv. þingmanns er auðvitað lýsandi fyrir viðhorf a.m.k. sumra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er eins og þeir haldi stundum að kerfið sé óþarft vegna þess að það framleiði fólk sem þurfi á liðsinni að halda. Það er því miður ekki svo.

Almannatryggingakerfið er ein af þeim leiðum sem við höfum búið til með tiltölulega góðri samstöðu flestra flokka, alla vega um langa hríð, sem er beinlínis hannað til þess að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda. Að sjálfsögðu er það hugmyndafræðin og heimspekin á bak við það frumvarp sem hér er rætt, viljinn til þess að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á liðsinni að halda.

Ég er þeirrar skoðunar, hvað sem menn kunna að hafa sagt í dag, að með frumvarpinu er verið að stíga mikilvægt skref. Ég tel að verið sé að ná ákveðinni áfanganiðurstöðu í baráttu sem hefur staðið mjög lengi. Frá því að ég kom inn á þing hef ég orðið þess áskynja, eins og aðrir hv. þingmenn, að baráttufólk eins og hv. þingmaður sem situr í forsetastóli fyrir aftan mig, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur verið óþreytandi í elju sinni við að reyna að bæta réttindi foreldra langveikra barna. Það hefur tekið tímann sinn. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda fyrirspurna, þingmála og ræðna sem þingmenn eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafa flutt um málið.

Dropinn holar steininn. Það er hið gamla lögmál. Það sannast á þessu máli. Þetta mál er afrakstur vinnu sem fór af stað í kjölfar þingsályktunartillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafði frumkvæði að og, muni ég rétt, var samþykkt hér einhvern tíma árs 2000. Ég fagna því að sú vinna hefur borið árangur. Hér er verið að festa í lagaramma mikilvæga réttindabót. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað, eins og Jóhönnu Sigurðardóttur, að það hefði verið æskilegt að mun stærra skref hefði verið stigið, sérstaklega varðandi réttindi þess örfámenna hóps sem er verst staddur af þeim sem hér er verið að veita aukið skjól.

Það breytir ekki hinu að margir þingmanna í þessum sal, og hugsanlega meiri hluti af þeim sem hér eru staddir nákvæmlega núna, vænta þess að eftir næstu kosningar verði skipt um ríkisstjórn og það verði töluvert mokað út úr því fjósi sem nú stendur í Stjórnarráðinu og nýtt fólk komi inn. Ég fagna því þess vegna að búið er að taka upp þessi réttindi vegna þess að ný ríkisstjórn getur útfært þau og bætt. Á þessu frumvarpi eru ákveðnir skafankar og það er þess vegna sem ég tek undir með þeim tillögum sem félagar mínir í stjórnarandstöðunni ýmist flytja eða styðja og liggur hér fyrir á sérstöku þingskjali. Mér er t.d. alveg fyrirmunað að skilja af hverju ekki er ákvæði sem heimilar að framlengja bótatímann fram yfir níu mánuði í þeim tilvikum þar sem sannanlega er hægt að sýna fram á að börn og foreldrar þeirra þurfi á lengri aðstoð að halda.

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hve mikið þetta mundi kosta. Það hefur komið fram í þessari umræðu, og hefur ekki verið vefengt af neinum, að sá hópur sem hugsanlega þyrfti að nýta sér þann lengsta rétt sem að lokum fæst með þessu frumvarpi, níu mánuði, kynni að vera 20–30 fjölskyldur. Hugsanlega þyrfti einungis hluti af þeim hópi á lengri aðstoð að halda. Það er hins vegar sá hópur þar sem börnin eru alvarlegast veik og þar sem staða foreldranna í framhaldi af því er líklega verst. Þetta er sem sagt sá litli hópur, af þeim sem eiga þó skjól í þessum breytingum, sem þarf á mestri aðstoð að halda. Hvað mundi þetta kosta? Ákaflega lítið. Það mundi að öllum líkindum hlaupa á nokkrum milljónum á ári. Hvað segir nú hv. talsmaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem barðist fyrir því að Íslendingar tækju upp kjörorðið: Fjölskyldan í fyrirrúmi. Hvaða fjölskyldur eiga að vera fremst í fyrirrúminu? Eru það ekki þær sem eiga erfiðast? Ég held að það séu ákaflega fáar fjölskyldur á landinu sem þurfi meira á sterku liðsinni að halda heldur en þessar. Ég held, frú forseti, að einkanlega í þessu atriði gildi það sem hér var látið hvína yfir Framsóknarflokkinn í dag, að í þessu máli var hann örugglega beygður af Sjálfstæðisflokknum. Ég þekki af eigin raun að Framsóknarflokkurinn skilur þetta mál og að minnsta kosti einstakir þingmenn hans hafa borið það mjög fyrir brjósti.

Ég er líka þeirrar skoðunar að þau rök sem voru flutt fyrir breytingartillögunni sem stjórnarandstaðan mælti fyrir í dag, um að sams konar reglur væru látnar gilda í þessu tilviki varðandi upphæð bóta og gilda varðandi fæðingarorlofið, séu rétt. Þær röksemdir styðjast við fasta undirstöðu. Hver er munurinn á því að annast barn sem er veikt eða annast barn sem er nýfætt? Hugsunin á bak við hvort tveggja er að bæta foreldrunum upp vinnutap sem verður vegna þessa. Gefa þeim kost á að sinna barninu. Ég tek heils hugar undir með þeirri tillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir reifaði hér svo sköruglega í morgun, að þessi greiðsla eigi að nema 80% af meðaltali heildarlauna. Fyrir því liggja ákaflega sterk rök. Ég hef reynt að hlusta eftir því í morgun hvaða mótrök eru gegn því. Þau eru engin. Ekki nokkur nema hugsanlega þau sem liggja alltaf á bak við mál hv. þm. Péturs Blöndals. Ef menn bæta við réttindum er alltaf hætta á að einhver komi og misnoti þau. En ætli að það sé auðveldara að sanna nokkurn hlut í tryggingakerfinu en að barnið manns sé veikt og langveikt? Ég tel að það eigi ekki að vera nein áhöld um það og tel að það sé engin hætta á að það sé misnotað.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé misráðið með frumvarpi ríkisstjórnarinnar að fela Vinnumálastofnun umsjón með þessum málaflokki. Ég fæ ekki skilið rökin sem eru á bak við það. Ég beið eftir að heyra hv. þingmenn reyna að tína þau til. Ég hlustaði á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem kom upp eftir ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og sagði: En ég er búin að koma með þessi rök. Ég heyrði þau ekki og ég skildi þau ekki. Það liggur fyrir að menn þurfi að ganga á milli Pontíusar og Pílatusar, ef ekki Pílatusar og Heródesar, í viðureign sinni við kerfið. Það er óskaplega erfitt að vera foreldri sem er berjast fyrir betri kjörum fyrir fjölskylduna, að reyna að halda henni saman, þegar menn eru með langveikt barn í fanginu. Ég hélt að það væri yfirlýst stefna okkar þingmanna að draga úr skrifræðinu, draga úr þessum skrifræðisiðnaði, sem stundum er svo kallaður eftirlitsiðnaður þegar það snýr að atvinnulífinu. En eiga ekki að vera sömu viðhorf gagnvart venjulegu fólki sem þarf að sækja til kerfisins um vörn gegn erfiðum vandamálum? Að sjálfsögðu. Þegar við horfumst í augu við þá staðreynd að í dag þurfa foreldrar þessara barna að leita til ekki tíu og ekki tólf heldur fjórtán mismunandi stofnana í sumum tilvikum fæ ég engin rök fundið fyrir því að það eigi að bæta þeirri fimmtándu við. Til hvers? Til hvers að auka á vanda og umstang þessa fólks? Tryggingastofnun þekkir þetta fólk í langflestum tilvikum. Þetta fólk er viðskiptavinir stofnunarinnar. Hún hefur upplýsingar og hún hefur gögn um það. Til hvers þá að vera að reka þetta fólk til enn einnar stofnunarinnar? Það ber ekki að skilja þessi orð mín þannig að í þeim felist nokkurt vantraust á Vinnumálastofnun. Ég veit að hún býr bæði yfir vönduðum og góðum starfsmönnum og hefur alúð og hlýtt þel til þeirra sem þangað sækja sinn rétt. En það eru bara engin rök með því að þessi tiltekni málaflokkur verði færður undir hana. Það er þess vegna sem ég vildi gjarnan svona í lok þessarar umræðu spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur: Hver eru þessi rök?

Ég gæti haft ýmis fleiri orð um þetta mál, frú forseti. Ég vil t.d. taka undir að foreldrar eigi að hafa val um hvort þeir leita fyrst á vit ríkis eða sjúkrasjóða. Það er eina breytingin sem mér sýnist að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar flytji hér. Það er athyglisvert að hv. þm. Pétur Blöndal sagði að það væri vegna þess að frumvarp ráðherrans, sem er úr Framsóknarflokknum, væri ekki nógu skýrt. Það eru einu rökin sem koma fram um það mál. En ég held að það sé alveg ljóst að sú breytingartillaga er flutt vegna þess að áhöld eru um hvort það hafi verið upphaflegur tilgangur þess hæstv. ráðherra sem flutti málið inn í sali þingsins að hafa það með þeim hætti. En Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa það með þessum hætti og þess vegna skal breytingartillagan flutt. Það hefur komið fram í þessari umræðu að það er gert án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna.

Mér hló hugur í brjósti þegar ég heyrði hv. þm. Siv Friðleifsdóttur tala um að það væri nú ekki hægt að hlusta á verkalýðshreyfinguna í öllum málum. Það rifjaðist upp fyrir mér ágæt umræða sem sá hv. þingmaður tók þátt í um starfsmannaleigur. Þá taldi hún að það væri hin eina sanna og heilagasta ritning allra ritninga, að það sem verkalýðshreyfingin segði yrði að ná fram. En í þessu tilviki þarf ekki einu sinni að yrða á forustumenn hennar. Það hefur komið fram að álits þeirra á þessu var ekki leitað. En hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kann hugsanlega að hafa brugðið sé í líki flugu og setið á vegg þar sem hæstv. félagsmálaráðherra sat með nokkrum forustumönnum í verkalýðshreyfingunni og ræddi að vísu, eins og hv. þingmaður sagði, um margt annað líka. En það er ekki sá háttur sem Alþingi hefur á við að ákveða sín mál. Alþingi lætur ekki handhafa framkvæmdarvaldsins eiga viðræður fyrir sína hönd eða safna upplýsingum eftir að málið er komið inn í sali hins háa Alþingis. Ég veit að ég þarf ekki að segja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur það. Henni er mætavel kunnugt um skil löggjafans og framkvæmdarvaldsins og hefur m.a. flutt ágætar tillögur að breytingum á stjórnarskránni einmitt til að skerpa þau skil.

Frú forseti. Ég vonast til að hinir ágætu þingmenn stjórnarliðsins sjái einhverja tíru fyrir sjónum sínum í lok þessarar umræðu. Ég held t.d. að til að vinnuferlið varðandi sjúkrasjóðina sé eðlilegt sé nauðsynlegt að ræða milli 2. og 3. umr. um breytingartillögu hv. þingmanna stjórnarliðsins, til að það liggi alveg ljóst fyrir þegar þetta mál er afgreitt endanlega við 3. umr. hver afstaða verkalýðshreyfingarinnar er. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt og það er algjörlega rökrétt miðað við ýmislegt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur áður sagt um æskileg áhrif og völd þeirrar merku hreyfingar á starf Alþingis.