132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:41]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykjav. n. er afskaplega mælskur maður og þykir gaman að tala. Það er yfirleitt gaman að hlusta á hann. Sérstaklega þykir mér nú skemmtilegt að heyra hvað það pirrar hann mikið hve mikið traust er á milli stjórnarflokkanna, hvað okkur hefur gengið vel að vinna saman öll þessi ár og hvað það ríkir mikið jafnræði á milli flokkanna. Ég er alveg sannfærð um að hv. þm. Pétri Blöndal finnst hann ráða allt of litlu í félagsmálanefnd. Þannig að það er enginn að beygja annan í þessum málum. En það er alltaf svolítið skemmtilegt að finna hvað stjórnarandstaðan verður pirruð yfir miklu og góðu trausti og góðu samstarfi á milli stjórnarflokkanna tveggja.

Hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn vildi lítið gera í velferðarmálum. Það er rangt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf viljað verja öryggisnetið, verja þá sem eiga á brattann að sækja og þá sem á er hallað. Það hefur alltaf verið okkar kjörorð að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda. Það mál sem hér er til umræðu er afskaplega gott, það er stórt skref í rétta átt. Þetta er mikil réttarbót úr engu. Við skulum átta okkur á því að foreldrar langveikra barna höfðu ekki nokkra einustu hjálp. Núna er þó verið að ganga þessa leið. Það er ekki bara hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem hefur haft áhuga á þessu máli. Við höfum haft það fleiri og höfum verið að berjast fyrir því innan okkar flokka að þetta yrði gert. Ég held að flestallir þingmenn á Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) hafi haft mjög mikinn áhuga á að ná þessu máli fram.