132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það að við séum að þrepa inn réttindin þá var farið sérstaklega yfir það í nefndinni með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins og það var ekki talið að það væri neitt því til fyrirstöðu enda byggir frumvarpið á því að menn þrepi inn þessi réttindi.

Varðandi atvinnuleysisbæturnar kemur fram í frumvarpinu að þessi fjárhæð, 93 þús. kr., komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa og verðlags- og efnahagsmála, en svo hefur ráðherrann ákveðið svigrúm til þess að breyta fjárhæðinni eða hækka hana ef það verður veruleg breyting á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá því að fjárlögin voru afgreidd. Mér finnst mjög eðlilegt að hafa þetta svona þannig að svar mitt er það að ég styð þá hugmyndafræði sem kemur fram í frumvarpinu varðandi þessar greiðslur. Auðvitað skoðum við það í afgreiðslu fjárlaga ár hvert hvort við hækkum þessar bætur eða ekki.

Mér finnst alls ekki óforsvaranlegt að Vinnumálastofnun fari með þessar upplýsingar. Vinnumálastofnun er mjög öflug stofnun og auðvitað þurfa þeir að gæta persónuverndar og slíkra atriða eins og aðrar stofnanir sem sýsla með viðkvæmar upplýsingar og ég ber fullt traust til þess að Vinnumálastofnun geti það eins og Tryggingastofnun gerir í dag. Ég hef enga ástæðu til þess að halda annað.

Varðandi ASÍ er það alveg hárrétt sem kom hérna fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ASÍ vildi ekki óbreytt frumvarp, það sem ég var að vísa í að ASÍ vildi óbreytt var þessi breytingartillaga sem við vorum að gera, ég veit að ASÍ og stéttarfélögin vilja ekki breytingu á því ákvæði. Stéttarfélögin vilja hafa þetta eins og upphaflega frumvarpið gerir ráð fyrir, sem var í nefndinni til umfjöllunar, að foreldrarnir geti valið sér hvort þeir fari í sjúkrasjóðinn fyrst eða til ríkisins, en við erum að skylda að það sé farið fyrst í sjúkrasjóðinn, það var það sem ég átti við.