132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Tannlækningar.

252. mál
[15:41]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tannlækningar. Ég fagna þessu frumvarpi og finnst þetta vera augljóst hagsmunamál fyrir alla neytendur. Það má í raun og veru líkja þessu við það sem Neytendasamtökin hafa verið að berjast fyrir í mörg ár, að verslunarmenn verðmerki vörur sínar í búðargluggum. Það er reglulega gerð úttekt á því og farið yfir hversu margir á Laugaveginum geri þetta, í Kringlunni o.s.frv. Það er auðvitað eðlilegt og ætti að vera hluti af upplýsingaskyldu tannlækna að kynna gjaldskrá sína. Eins og þetta er í dag er hún alls ekki mjög aðgengileg neytendum. Þegar maður veltir því fyrir sér hvaða tannlækni maður ætti að velja þá, eins og kom ágætlega fram hjá hv. 1. flutningsmanni, Jóni Gunnarssyni, veltir maður fyrir sér gæðum og ábendingum en auðvitað hlýtur verðskráin að skipta verulegu máli líka. Það er reyndar dálítið merkilegt sem kemur fram í greinargerðinni hvað munurinn á endurgreiðslu Tryggingastofnunar og gjaldskrá ráðherra, eins og hún er, er orðinn gífurlega mikill. Ég þekki það af eigin reynslu, eigandi börn sem þurfa annað slagið að fara til tannlæknis, að maður á í raun og veru að fá 75% endurgreitt. En vegna þess að gjaldskrá tannlækna er þó nokkuð hærri, 30–40% hærri en viðmiðunargjaldskrá ráðherra, fær maður yfirleitt ekki nema 50% endurgreitt. Þá er hægt að velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki hreinlega lögbrot og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé að gera rétt með því að uppfæra ekki þessa verðskrá því að hún er í raun og veru í fullkomnu ósamræmi við það sem gengur og gerist á markaðnum. Við erum með frjálsa verðlagningu en það segir að endurgreiðsla eigi að vera 75% hjá börnum og síðan kemur í ljós að hún er kannski ekki nema 50%.

Ég segi eins og hv. 1. flutningsmaður, Jón Gunnarsson, að ég hefði haldið að þetta væri mál sem allir þingmenn óháð flokkslínum gætu sameinast um og þess vegna vekur það furðu mína að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins er meðal flutningsmanna frumvarpsins. Ég held að auðvitað hafi einhverjir sjálfstæðismenn viljað vera þar en að ef til vill hafi komið einhverjar skipanir að ofan um að gera það ekki.

Ég vona samt sem áður að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu í nefndinni af því að flutningsmenn þess eru þingmenn fjögurra flokka af fimm sem sitja á þingi. Það væri mikið hagsmunamál ef það næði fram að ganga á vorþinginu vegna þess að þetta er mál sem snertir alla neytendur, allir þurfa einhvern tímann að fara til tannlæknis. Ég held því að þetta mál ætti að renna í gegnum þingið. Ég hef reyndar ekki séð athugasemdir tannlæknanna en mér kemur það mjög á óvart að þeir skuli vera svona óánægðir með þetta frumvarp. Ég veit ekki hvort þeir eru að horfa í kostnaðinn af því að þurfa að auglýsa gjaldskrána en ég hélt að flestir atvinnurekendur væru komnir með heimasíður og það væri nú hentugt að hafa gjaldskrár tannlækna t.d. á heimasíðu þeirra. Það ætti að vera aðgengilegt fyrir flestalla neytendur. Hugsið ykkur, það væri dálítið einfaldara að geta setið heima í stofu og flett upp heimasíðum tannlækna og borið saman tannlæknakostnað í staðinn fyrir að þurfa að heimsækja allar tannlæknastofur eins og þetta er núna, herra forseti.