132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[15:55]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um átak í uppbyggingu héraðsvega. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að gert skuli sérstakt átak í viðhaldi og uppbyggingu héraðsvega sem flokkast samkvæmt vegalögum oftast undir safn- og tengivegi. Sérstaklega skal hugað að lagningu bundins slitlags á þessa vegi. Til þess verði varið a.m.k. 4 milljörðum kr. sem dreifist jafnt á næstu fimm ár. Komi sú fjárveiting til viðbótar þeim fjármunum sem ætlaðir eru þessum vegaflokkum í núgildandi samgönguáætlun.

Enn fremur skipi ráðherra þriggja manna nefnd er kanni hvernig breyta megi skilgreiningum og einfalda þær, sem og flokkun vega eftir tegundum í vegalögum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að teknu tilliti til breyttra þarfa og aukinna krafna sem gerðar eru til þessara vega. Nefndin skili áliti sínu fyrir 1. maí 2006.“

Með þessari tillögu til þingsályktunar um átak í uppbyggingu vega, veganna sem liggja inn til dala og út til stranda, er meðfylgjandi greinargerð:

„Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur lítið breytt. Í vegalögum er þjóðvegum skipt í stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Hlutur safn- og tengivega, þ.e. héraðsvega, er afar mikilvægur í samgöngukerfi landsmanna. Þetta eru þeir vegir sem tengja einstök býli, náttúruvætti og sögustaði við aðalstofnvegina og skipta því miklu máli fyrir afkomu og framtíð fólks á stórum svæðum. Á þetta við um bændur og aðra þá sem vegna atvinnustarfsemi sinnar þurfa að sækja aðföng og koma frá sér afurðum með reglulegum hætti. Héraðsvegirnir eru líka mikilvægir fyrir akstur skólabarna og skipta miklu máli fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þá má og nefna vegi að stórum sumarbústaðalöndum sem þurfa að anna mikilli umferð á vissum árstímum.“

Þeir vegaflokkar sem ég hef hér nefnt, vegir sem eru inn til dala og út til stranda og mynda netverk samgangna innan byggðarlaga, hafa orðið hornreka í samgöngumálum á síðustu árum. Það er hægt að sjá m.a. ef litið er á fjárveitingar til þessara vegaflokka og í tillögunni er það listað upp hvernig fjármagn hefur verið veitt á hina einstöku vegaflokka. Þar sést t.d. að í tengivegi, sem eru aðalvegirnir sem liggja út um sveitir landsins, voru veittar 574 millj. kr. árið 2001 en aðeins 501 millj. kr. árið 2004, þ.e. lægri fjárveiting var til þessara vega árið 2004 en 2001.

Ef litið er á brýr á þessum vegaflokkum, brýr á vegum innan héraða, hefur fjármagn til þeirra einnig dregist saman. Árið 2001 voru það 328 milljónir kr., árið 2002 238 milljónir kr. og 2004 225 milljónir. kr. Það má segja að þetta hangi nokkuð svipað en þó er heldur um lækkun að ræða. Við sem þekkjum til vitum að einmitt á þessum vegum innan héraða eru þröngar og úr sér gengnar brýr sem engan veginn uppfylla öryggi eða bera þá umferð sem ætlast er til.

Sama er upp á teningnum ef litið er á svokallaða safnvegi sem eru vegirnir sem liggja heim að einstökum bæjum. Þar voru fjárveitingar árið 2001 335 millj. kr. en árið 2004 eru þær 319 millj. kr. Svona má rekja, herra forseti, hvernig þessir vegaflokkar hafa eiginlega orðið út undan í viðhaldi og uppbyggingu vegakerfis landsins. Vissulega þarf að gera átak. Ég er ekki að gera lítið úr því átaki sem gert er á stofnvegunum og þykir þar nógu hægt ganga og dapurt í því sambandi að þurft skuli hafa að skera niður fjárveitingar samkvæmt vegáætlun sem Alþingi hafði samþykkt. Vegáætlun hefur verið skorin niður árlega um í kringum 2 milljarða kr. til þess að mæta svokallaðri þenslu sem menn hafa sagt vera vegna stóriðjuframkvæmdanna. Niðurskurðurinn til þess að mæta þeirri þenslu hefur bitnað á vegaframkvæmdum, á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi, á þeim landshlutum þar sem mestra aðgerða er þörf og ekki hafa hvað síst þessir sveitavegir orðið út undan.

Í þessari þingsályktunartillögu er síðan rakið áfram mjög ítarlega hvernig fjármagn til þessara vega hefur breyst. Rakin er lengd þessara vega. Sem dæmi má taka að vegakerfið allt er í kringum 13 þúsund kílómetrar, allt vegakerfi landsmanna, en af því eru stofnvegir liðlega 4 þúsund kílómetrar, 4.272 samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og 3.943 kílómetrar eru tengivegir eða samtals 8.215 kílómetrar af þeim 12.970 kílómetra löngu vegum sem um að ræða. Safnvegir og tengivegir eru því samtals um liðlega helmingur eða um helmingur af vegakerfi landsins.

Herra forseti. Hér er svo áfram ítarlega fjallað um ýmsa þessa skiptingu. Eitt í þessu máli t.d. sem kemur hvað bagalegast niður og furðulegar reglur eru um, er að ef bær fer í eyði, ef föst búseta leggst af þá fellur vegurinn þangað niður um flokk og fellur ekki lengur undir hið fasta vegakerfi landsins. Þessir vegir geta engu að síður verið afar mikilvægir fyrir nýtingu landsins, fyrir nýtingu auðlindanna, vegna ferðamanna, útivistar o.s.frv. En þessi lög og reglur eru með þeim hætti að þá falla þessir vegir úr tölu þjóðvega og verða nokkurs konar einskismannsvegir, þ.e. engir bera lengur ábyrgð á þeim. Að vísu er ætlast til þess að viðkomandi sveitarfélag eða sá sem sér sér helst hag í þeim haldi þeim við. Það er algjörlega óviðunandi að þetta skuli vera með þessum hætti. Í Skagafirði eru t.d. langir vegir inn Skagafjarðardalina sem hafa fallið úr tölu þjóðvega af því að bæir hafa farið úr fastri ábúð. Engu að síður eru þessir vegir jafnmikilvægir til þess að nýta gæði landsins, til heyskapar, til ferðaþjónustu o.s.frv. Ef litið er á þjóðhagslegt gildi veganna og mikilvægi þeirra er engin röksemd fyrir því að fella þá úr tölu þjóðvega og láta þá verða eins konar einskismannsvegi eins og nú er. Á þetta er líka bent í þessari ítarlegu þingsályktunartillögu um vegi sem ég kalla héraðsvegi, þ.e. vegi er liggja inn til dala og út til stranda innan byggðarlaga og eru í rauninni lífkerfi, lífæðar viðkomandi byggðarlaga.

Í greinargerðinni sem er mjög ítarleg segir síðan, herra forseti:

„Við erum lítil þjóð í stóru og ógreiðfæru landi og samgöngur hljóta því að vera höfuðatriði fyrir samfélagið á hverju svæði. Nú hefur orðið áherslubreyting í vegamálum á síðasta áratug þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á stórframkvæmdir og nokkra aðalvegi. Á sama tíma hafa vegir sem liggja af hringveginum setið hlutfallslega á hakanum.

Héraðsvegirnir inn til dala og út til stranda eru samgönguæðar heils atvinnuvegar. En einnig býr fjölmargt fólk í dreifbýli sem sækir vinnu um langan veg til næsta þéttbýlis og börnum er ekið í skóla. Því eru takmörk sett hvað bjóða má ungum börnum í löngum skólaakstri á slæmum vegum. Góðir akvegir eru því hreinlega grundvallarforsenda fyrir byggð víðs vegar um landið. En það hangir fleira á spýtunni. Ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein og miklar vonir bundnar við hana til að treysta atvinnu til sveita. Íslendingar vilja gjarnan laða til sín ferðamenn og auglýsa náttúrufegurð landsins á erlendri grundu og þeir vilja einnig njóta hennar sjálfir. En til þess að komast að helstu náttúruperlum landsins verður oftar en ekki að keyra langar vegalengdir eftir héraðsvegum og umferð um þá er oft stríð á sumrin. Oft eru þessar leiðir líka eftirsóttar af ferðamönnum, þar á meðal hjólreiðafólki, vegna þess hvernig vegirnir liggja í landinu og allt önnur upplifun er að aka þá en mikið uppbyggðar stofnbrautir. Með fjölgun ferðamanna mun umferð um þessa vegi aukast og þar með vex þörfin fyrir uppbyggingu og endurbætur á héraðsvegunum. Góðir héraðsvegir eru því ekki sérhagsmunamál bænda heldur hluti af því að byggja Ísland upp sem ferðamannaland. Góðir vegir eru forsenda nýsköpunar í atvinnulífi til sveita.

Ástand héraðsveganna er mjög misjafnt en Vegagerðin verður að takmarka verk sín við fjárveitingar og virðist forgangsröðun að mestu miðast við flokkun vega samkvæmt vegalögum frekar en þarfir íbúa eða atvinnulífs á hverju svæði. Þannig njóta ýmsir mikilvægir tengivegir og safnvegir mjög takmarkaðrar þjónustu þótt þeir séu eina vegtenging íbúa á stórum svæðum við stofnvegi. Þá er viðhald tengivega í sveitum víða afar lítið og víst er að ferðamenn færu án efa meira um þá ef ástand þeirra væri betra. Má hér nefna vegi eins og þann sem liggur út á Látrabjarg, veginn um Strandir og vegina um Hólasand og út á Melrakkasléttu.

Mjög hallar á tengivegi og safnvegi í samanburði við stofnvegi hvað varðar uppbyggingu með lagningu bundins slitlags á síðustu árum.“

Hér í þingsályktunartillögunni er einmitt gerð grein fyrir hvað hefur verið lagt af bundnu slitlagi á þessa vegi á undanförnum árum.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Flutningsmenn telja þá þróun varhugaverða og geta leitt til þess að ákveðin svæði einangrist og missi af viðskiptum og öðrum tækifærum sem tengjast umferð ferðamanna. Bundið slitlag eykur og möguleika íbúanna til að komast örugglega til og frá heimili sínu.“

Ég vek athygli á því að hér er ég fyrst og fremst að leggja áherslu á vegi innan byggðarlaga, ekki í sjálfu sér í óbyggðum.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Vel má setja sérreglur um hámarkshraða á þessum vegum til að viðhalda fullnægjandi öryggisstigi.“

Að því er mér hefur verið tjáð gilda reglur um að ef lagt er bundið slitlag á vegi þá verði þeir að bera svo og svo hraða umferð. Um það tel ég að megi bara setja sérstakar reglur til þess að fullnægja öryggi.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Ferðamenn hérlendis ferðast í síauknum mæli á eigin vegum og þá oft á litlum bílum, sem þola illa lélega vegi, en einnig í vaxandi mæli á reiðhjólum. Gæði veganna og umferðaröryggi ráða því miklu um samkeppnishæfni einstakra svæða til búsetu og ferðaþjónustu. Því er lögð áhersla á að átak verði gert varðandi þessa vegi, ekki hvað síst með lagningu varanlegs og bundins slitlags.

Sveitarfélög hafa vegna breyttra búsetuhátta orðið að efla vegaþjónustu á síðustu árum án þess að ríkið hafi aukið fjárframlög til þessara verka. Nú er algengara en áður að fólk búi í sveit en starfi jafnframt í þéttbýli og þurfi því að ferðast óhindrað nær alla daga ársins. Þá er börnum víða ekið um langan veg í skóla, m.a. vegna sameiningar sveitarfélaga, og vart bjóðandi að slíkum leiðum sé ekki haldið vel við. Þessi breyting þýðir t.d. að moka þarf þessa vegi reglulega að vetrinum, en moksturinn lýtur ýmist gamalli helmingaskiptareglu ríkis og sveitarfélags eða er alfarið á kostnað sveitarfélags og viðkomandi bónda. Þá er rykbinding á malarvegum afar brýn að sumri til. Því er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar almenna þjónustu á þessum vegum og þá jafnframt verka- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á þessum þáttum. Ljóst er að dreifbýl sveitarfélög hafa litla burði til að standa straum af auknum kostnaði við snjómokstur eða aðra vegþjónustu.“

Herra forseti. Ég kem ítarlegar að þessu máli í seinni ræðu minni. En þessir vegir inn til dala og (Forseti hringir.) út til stranda, héraðsvegirnir, eru afar mikilvægir og við þurfum að gera átak í þeim efnum.