132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:21]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég get tekið undir að geysimikið hefur verið gert í vegamálum. En samt sem áður, hv. þm. Hlynur Hallsson sagði: Það er eins og maður detti 50 ár aftur í tímann. Ég hjó sérstaklega eftir því. Ég get farið með hv. þingmenn í bílferð vestur á æskuslóðir mínar og þar erum við komin 50 ár aftur í tímann á þeim vegum sem eru notaðir enn í dag. Sem betur fer eru þetta stuttir spottar og það er verið að vinna verulega í þeim en það vantar ótrúlega mikið enn þá. Það er hreinn sannleikur að sumir af þessum vegum, eða slóðum getum við sagt, eru eins og þeir voru lagðir fyrir 50 árum. Borið hefur verið í þá síðan og þeir heflaðir og búið. En verstu kaflarnir eru farnir, búið er að gera heilmikið í því að laga vegi en það er heilmikið ógert og ekki síst á fyrrnefndu svæði.

Ég vil taka undir eiginlega allt sem hv. flutningsmaður segir um ástand vega, þ.e. héraðsvega, sem eru tengivegir og safnvegir mikið til. Ég get tekið undir hvert einasta orð. Samt sem áður er ég mjög efins um að ég geti tekið undir tillöguna í heild. Ástæðan er sú sem ég nefndi áðan, við þurfum svo gífurlega mikið fjármagn til að ljúka þessum stofnvegum, bara brautum á milli þéttbýlisstaða og það þekkjum við í kjördæmi okkar hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Ég óttast því mjög, þó að hér sé gert ráð fyrir sérstakri og tilgreindri fjárveitingu, að hún fáist ekki nema þá ef hún yrði tekin af sameiginlegum sjóðum. Vissulega væri gott ef þetta fengist sem sértækt efni en ég vildi ekki sjá að styðja þetta ef það yrði til þess að draga úr nauðsynlegri uppbyggingu á stofnvegunum.

Það getur vel verið að upplýsingar sem hv. flutningsmaður kom með, sem voru nýjar fyrir mig, leysi málið. Hann sagði að vegir féllu niður um flokka, þ.e. vegir flokkast öðruvísi t.d. þegar bær fer í eyði, þá lækkar hann um flokk. Er það ekki rétt, hv. flutningsmaður? (Gripið fram í: Jú.) (Gripið fram í.) Ef svo fer fram með stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum gæti vel verið að þetta yrði til þess að leysa þjóðvegavandann. Þykir mér þá verr farið en heima setið ef það yrði reyndin því að með því mundu þeir að sjálfsögðu styttast.

En ég endurtek að hér er mjög þarft mál. Hér eru mjög gagnlegar upplýsingar um ástand þessara mála. Ég treysti mér ekki til að styðja að 4 milljarðar komi þarna nema tryggt sé, og ef það verður styð ég þetta eindregið en aðeins ef tryggt verður að það komi ekki niður á stofnframkvæmdum.