132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:41]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það ætti að vera óþarfi að skrifa bréf af þessu tagi. Þessi bréf sýna betur en nokkuð annað vaxandi tengslaleysi Alþingis og þingmanna við kjör og búsetuskilyrði fólks úti um land. Það áréttast, finnst mér, oft í umræðunni inni á þingi og í nefndum að einmitt þessir málaflokkar, sem fólk skrifar erindi um, fá lítinn stuðning. Þetta sýnir vaxandi firð, finnst mér, bæði löggjafans og framkvæmdarvaldsins frá því ástandi sem fólk býr við. Þetta er ekki bara í vegamálum, þetta er líka í atvinnumálum. Hvað er að gerast í fiskvinnslunni eða ferðaþjónustunni út um land í þessari hágengis- og stóriðjustefnu?

Ég er ekki sammála því sjónarmiði, eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði við Vestfirðinga, að ruðningsáhrifin af stóriðjunni séu líka af því góða. Þið getið bara flutt annað, sagði ráðherra. Ég kalla þetta firð. Þarna eru þingmenn og ráðherrar gersamlega komnir úr tengslum við þá grasrót sem þeir eru sprottnir úr og eiga að starfa fyrir.

Ég tel að svipað sé ástatt með innanhéraðsvegina, sveitavegina, vegina inn til dala og út til stranda, þeir hafa orðið útundan. Það eru ekki mjög margir kjósendur við hvern afleggjara, ég geri mér grein fyrir því. Kannski vega og meta ráðherrar og einstakir stjórnmálamenn ákvarðanir sínar út frá því hve margir kjósendur eru við hvern spotta. En það er orðin býsna mikil firð.

Herra forseti. Ég hvet til mjög hraðrar og góðrar afgreiðslu þessa máls.