132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefur upplýst að álsamsteypan Alcan hafi haft í hótunum ef ekki yrði heimiluð stækkun á álverinu í Straumsvík. Talsmaður Alcan-samsteypunnar hefur hvorki viljað játa því né neita að orðsendingar þessa efnis hefðu farið á milli Alcan og íslenskra stjórnvalda en lagði áherslu á að engar hótanir hefðu átt sér stað. Það voru heldur ekki orð hæstv. forsætisráðherra Íslands. En auðvitað er í því fólgin hótun ef stjórnvöldum er gerð grein fyrir því að til álita komi að loka álverinu í Straumsvík ef ekki verði farið að vilja álfyrirtækisins.

Straumsvík er stór vinnustaður og eðlilegt að menn leggi við hlustir þegar svona er talað. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa upplýst þjóðina um samskipti stjórnvalda við álfyrirtækið af þessu tilefni. En þessi atburður sýnir okkur hins vegar hvar völdin koma til með að liggja í þjóðfélaginu með stefnu ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst Framsóknarflokksins, að gera Íslandi háð álframleiðslu hvað varðar allt að þriðjungi efnahagsstarfseminnar. Er hæstv. forsætisráðherra sammála því mati að litlu efnahagskerfi eins og okkar sé betur borgið fyrir þá fjölbreyttri efnahagsstarfsemi en fáum fjölþjóðlegum auðhringum?

Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða forsvarsmenn Alcan hafi tekið þátt í viðræðum við íslensk stjórnvöld og að hæstv. forsætisráðherra upplýsi þingið um samskipti sín við þá.