132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Fréttir af jarðskjálftum.

[15:15]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má vel vera svo að sérfræðingar okkar, hvað varðar jarðskjálfta hafi ekki fyllst neinni skelfingu og hafi talið að hér hafi ekki verið neinn alvarlegur atburður á ferðinni. Við skulum vona að það sé rétt. En það eru hins vegar íbúar í þessu landi, fólk sem fyllist ótta þegar svona lagað gerist og það fólk á heimtingu á upplýsingum í upplýsingasamfélaginu á Íslandi árið 2006. Það á skilyrðislausa heimtingu á því að verða upplýst strax og svona atburðir verða.

Ég minni til að mynda á að það er mjög margt fólk sem býr á Suðurnesjum og Suðurlandi sem vinnur hér í Reykjavík, langt fjarri heimilum sínum. Það hefur í raun og veru hefur ekki haft hugmynd um, fyrr en kannski núna, hvernig ástandið virkilega er heima hjá því. Þess vegna hlýtur það að vera undrunarefni og mjög ámælisvert ef stjórnvöld geta ekki brugðist betur við en við sáum hér gerast áðan.