132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Útgáfa starfsleyfa til stóriðju.

[15:18]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er erfitt að svara spurningum um það sem enginn veit hvernig lítur út eftir einhver ár. Enginn veit það í dag vegna þess að það er ekki búið að taka ákvörðun um neitt af því sem hefur verið í umræðunni. Það eru nú staðreyndir þessa máls. Ég held að okkur væri því nær að bíða eftir því að þessi mynd verði eitthvað ljósari en hún er í dag. Við vitum ekki enn þá hvort verður af stækkun álversins í Straumsvík. Það standa yfir könnunarviðræður um álver á Húsavík. Það er ekkert í hendi heldur um það svo að öll þessi mál eru í þvílíkri óvissu að við getum ekkert sagt um það í dag hversu miklar framkvæmdir verða við álver í framtíðinni.

Hvað snertir hins vegar íslenska ákvæðið þá er það algjörlega fullljóst að það eru að meðaltali 1.600.000 tonn á ári. Það er hægt að jafna því yfir tímabilið, þannig er ákvæðið. Það eru staðreyndir málsins. Það skiptir auðvitað máli í því sambandi hvenær álver kemur inn því það er hægt að jafna því á allt tímabilið.