132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum fara yfir þetta lið fyrir lið í umræðunni og fara yfir álitsgerðir Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar. En í þessu litla andsvari langar mig til að inna hv. þingmann nánar eftir einu. Það er um rússnesku leiðina sem hann nefnir svo og er þar að vísa til mannréttindabaráttu sem nú er háð víða um heim af hálfu verkalýðssamtaka, neytendasamtaka, Sameinuðu þjóðanna, um að líta beri á vatn sem mannréttindi sem allir hafi aðgang að og með áherslu á að tryggja vatnið sem sameign.

Ég ætlaði að sjálfsögðu að spyrja um miklu fleira, t.d. það hvað valdið hafi sinnaskiptum hjá Framsóknarflokknum, vegna þess að okkur var sagt að vatnafrumvarp áþekkt því sem lagt var fyrir þingið á síðasta ári yrði ekki lagt fyrir þetta þing. Þess vegna olli það bæði vonbrigðum og mikilli undrun (Forseti hringir.) þegar þetta frumvarp birtist í byrjun nóvembermánaðar á síðasta ári.