132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að biðjast afsökunar á því að þurfa að endurtaka mig, því að ég fæ að mörgu leyti sömu spurningarnar aftur og aftur. Árið 1923 tókust á tvö andstæð sjónarmið sameignarsinna og séreignarsinna. Dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti að vatnsauðlindin er skilgreind sem eignarréttur viðkomandi landeiganda. Ótvírætt. Síðan kemur hv. þm. Hlynur Hallsson og talar um að hér sé um stefnubreytingu að ræða en ekki formbreytingu eins og við hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans höldum fram. Það er staðfest í dómaframkvæmd Hæstaréttar að vatnsauðlindin tilheyri viðkomandi fasteign og sé því háð eignarréttindum viðkomandi aðila. Skýrar get ég ekki talað, hæstv. forseti.