132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:04]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta afar undarleg ræða. Ég hef ekki haldið því fram að búa ætti til einhver sérstök hugtök um hver ætti vatnið. Aðalatriðið er að vatn er ekki í eigu neins. Hagnýtingarrétturinn er í eigu þeirra sem hann hafa, eru eigendur að landi. Það er mjög fáránlegt að halda því fram að einhverjir geti komið til Íslands af því að Samfylkingin haldi því fram að vatnið sé ekki séreign. Vatn er ekki séreign og hefur ekki verið það í lögunum. Hvernig í ósköpunum geta menn haldið því fram að séreignarstefnan hafi orðið ofan á þegar niðurstaðan varð önnur? Niðurstaðan í lögunum 1923 var sú að séreignarstefnan yrði ekki ofan á. Þó svo einhverjir hafi þá skoðun í dag að séreignarstefnan hafi orðið ofan á af því að dómaframkvæmd hafi sýnt þetta eða hitt er bara ekki rétt. Niðurstaðan er sú árið 1923 að séreignarstefnan verður undir.

Hins vegar er ljóst að niðurstaðan er sú að hagnýting eignaraðila á löndum er varin. Menn geta nýtt sér vatnið, menn geta nýtt sér auðlindirnar í sínu landi, um það eru ekki deilur. Hins vegar er engin ástæða til þess að breyta skilgreiningunni á vatni yfir í eignarhald frekar en bara loftinu eða fuglunum sem fljúga yfir landareignunum.