132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:46]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ágæt grein hjá Þorgeiri Örlygssyni. Það er full ástæða til að óska hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni hjartanlega til hamingju með þessa stund í dag. Það er greinilegt að hann er glaður þar sem hann stendur í ræðustólnum eftir að hafa svo listilega beitt Framsóknarflokknum fyrir frjálshyggjuvagn sinn sem raun ber vitni. Það veit þingheimur og þjóðin að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er einn af einörðustu talsmönnum einkaeignarréttarins á Íslandi og hefur trúlega verið frá blautu barnsbeini, sterkur hægri maður og kemur ekkert á óvart í málflutningi hans í dag.

Þeim hefur verið lagið sjálfstæðismönnum að beita Framsóknarflokknum fyrir vagn sinn við að einkavæða fiskinn í hafinu, auðlindirnar í jörðinni og nú jafnvel vatnið. Á morgun kannski loftið og sólina. En við hljótum að spyrja hv. þingmann: Ef þetta er engin breyting, að lýsa vatnið einkaeignarrétt landeigenda eða fjárfesta, hvers vegna sækir stjórnin það svo fast að hún kemur með það inn þriðja árið í röð og ætlar að fara með það í umræður þar sem hún veit að veruleg andstaða er við málið og að það mun tefja mjög fyrir öllu þinghaldi? Auðvitað vegna þess að það skiptir stjórnina máli, vegna þess að í frumvarpinu, ólíkt því sem hv. þingmaður heldur fram, er efnislegt innihald. Í því felst breyting, eins og hv. þingmaður sagði, til að skýra eignarheimildir, þ.e. til að treysta séreignarréttindi yfir vatni.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann vísaði til greinar Sigurðar Líndals: Hvaða atriði í hinni jákvæðu skilgreiningu á einkaeignarréttinum láðist að telja upp í gildandi vatnalögum og hvaða annmarkar eru á þeirri jákvæðu skilgreiningu sem knýja hann til þess að setja fram þær breytingar sem hann fylgir í dag?